Eftir erfitt tímabil í Covid eru bílaleigurnar, líkt og önnur starfsemi í ferðaþjónustu, komnar aftur á flug. Afkoma fjögurra stærstu bílaleiga landsins; Hölds ehf. (Bílaleiga Akureyrar/Europcar), BLUE Car Rental ehf., ALP hf. (Avis og Budget), og Bílaleigu Flugleiða ehf. (Hertz), hefur vænkast umtalsvert á skömmum tíma en allar skiluðu þær tapi árið 2020.
Hjá ALP nam tap ársins 2020 á föstu verðlagi 909 millj. kr. Árið 2019 var einnig tap af rekstrinum en félagið skilaði hagnaði 2018. Tap hjá Bílaleigu Flugleiða nam 355 millj. kr. árið 2020. Árið áður skilaði félagið hagnaði en tap var af rekstrinum árið 2018. Tap ársins 2020 hjá BLUE Car nam 563 millj. kr. og Höldur skilaði 339 millj. kr. tapi árið 2020. Bæði félögin höfðu skilað hagnaði 2018 og 2019.
Viðsnúningur varð strax árið 2021, þegar félögin fjögur skiluðu samanlagt 2.485 millj. kr. hagnaði á föstu verðlagi, og var rekstrarárið 2022 enn betra. Höldur skilaði 1.827 millj. kr. hagnaði árið 2022, hagnaður BLUE Car nam 1.653 millj. kr., hjá ALP nam hagnaður 1.225 millj. kr., og Bílaleiga Flugleiða skilaði 799 millj. kr. hagnaði. Samanlögð velta þessara fjögurra félaga var 29,8 milljarðar króna árið 2022, samanborið við 18,9 ma.kr. árið áður.
Athyglisvert er að skoða ýmsar kennitölur til að fá betri mynd af rekstrinum. Hagnaður sem hlutfall af veltu var til að mynda innan við þriðjungur hjá félögunum, þótt hlutfallið hafi batnað milli ára. Sé litið á arðsemi eigin fjár jókst arðsemin milli ára hjá þremur af fjórum félögum en hlutfallið var á bilinu 33,7% til 95,3%. Þá jókst arðsemi eigna milli ára hjá öllum félögunum og var á bilinu 13,7% til 29,7%.
Rétt er þó að taka fram að þegar félögin skiluðu síðast hagnaði, fyrir árið 2020 var arðsemi eigin fjár á bilinu 3,5% til 31,1% og arðsemi eigna á bilinu 0,5% til 5,9%. Í báðum tilfellum var arðsemin mest hjá BLUE Car en minnst hjá ALP og Bílaleigu Flugleiða. Þá hafði hagnaður sem hlutfall af veltu ekki farið yfir tíu prósent hjá neinum.
Nánar er fjallað um bílaleigurnar í Viðskiptablaðinu sem kom út í morgun. Áskrifendur geta lesið fréttina í heild hér.