Eldur Ólafsson, forstjóri Amaroq Minerals, segir félagið vel fjármagnað og að framkvæmdaáætlun miði nú að því að auka vinnslugetu námunnar í Nalunaq í 300 tonn á dag eftir hlutafjáraukningu í febrúar.
Málmleitarfyrirtækið sótti 44 milljónir punda eða um 7,6 milljarða íslenskra króna í hlutafjárútboði í síðasta mánuði. Nýju hlutirnir námu um 19% af öllu útgefnu hlutafé félagsins.
Samkvæmt ársuppgjöri var veltufé frá rekstri í gullstarfsemi félagsins 37,6 milljónir dala sem samsvarar rúmum 5 milljörðum króna. Heildargreiðslugeta samstæðunnar var 78,2 milljónir dala í árslok sem samsvarar 10,7 milljörðum króna.
„Við höfum verið að glíma við margvíslegar seinkanir vegna lokunar siglingaleiða í lok síðasta árs og mikillar kuldatíðar í Nalunaq í ársbyrjun 2024. Hins vegar horfir þetta allt til betri vegar núna og við erum að ná góðum afköstum við byggingu námunnar sem og vinnslu,” segir Eldur Ólafsson, forstjóri Amaroq Minerals, í uppgjörinu.
Félagið telur horfur góðar fyrir árið en um 80% af öllum samningum fyrir vinnslustöðina var lokið á fjórða ársfjórðungi 2023. Þá hefur félagið stækkað vinnubúðirnar á svæðinu og bætt við 60 rúmum.
Unnið er að því að koma vinnslustöðinni í gang en í lok árs var um 16% af þeirri vinnu lokið, samkvæmt uppgjöri.
„Það verður skýrara með hverjum deginum hversu miklu máli Grænland skiptir fyrir Vesturlönd til að tryggja málma sem við þurfum til daglegra nota. Það var ekki síst undirstrikað með undirritun tveggja samkomulaga Evrópusambandsins við heimastjórnina í Grænlandi en Evrópusambandið stefnir enn fremur að opnun ræðisskrifstofu í Nuuk.
2024 verður ár mikilla umbreytinga fyrir Amaroq. Náma félagsins í Nalunaq kemur nú inn í tekjuflæðið og á sama tíma erum við að auka þungann í rannsóknum á flestum okkar leitarsvæðum sem innihalda gull sem og mikilvæga málma.”
Töpuðu um tveimur milljörðum
Handbært fé Amaroq í lok árs var 21 milljón bandaríkjadala sem samsvarar um 2,8 milljörðum á gengi dagsins. Mun það vera meira en helmingi minna en handbært fé félagsins í árslok 2022 þegar félagið var með 53 milljónir dala á hendi. Félagið sótti sér þó auka fjármagn í febrúar síðastliðnum.
Amaroq tapaði rúmum 14 milljónum dala í fyrra sem samsvarar um 1,9 milljörðum króna á gengi dagsins.