Aranja hefur fjárfest í nýsköpunarfyrirtækinu Slate.se, sem sérhæfir sig í að gera þróun á vefþjónustum og gagnalagi aðgengilegri fyrir hugbúnaðarteymi. Trúnaður ríkir um fjárhæð fjárfestingarinnar að svo stöddu.

Fjárfestingin fylgir í kjölfar þess að Aranja hefur notast við lausnina síðastliðið ár í nýsköpun, að því er segir í fréttatilkynningu.

Stofnendur Slate.se, þeir Alexander Jósep Blöndal og Birkir Örn Karlsson, hafa unnið að þróun vörunnar síðastliðin þrjú ár.

„Við hugbúnaðargerð fer oft stór og tímafrekur hluti í að smíða vefþjónustur og gagnagrunna. Með Slate geta hugbúnaðarteymi búið til, gefið út og fylgst með bakendaþjónustum sínum á auðveldan hátt í rauntíma samvinnu við aðra teymismeðlimi án þess að þurfa að sýsla með rekstrarumhverfi,“ segir Sævar Már Atlason, nýr framkvæmdastjóri Slate.se.

Hugbúnaðarfyrirtækið Aranja stendur meðal annars á bakvið samgöngulausnina Hopp, sem hefur sótt 1,1 milljarð í fjármagn og er nú í hröðum vexti erlendis.

„Við hjá Aranja erum stöðugt að leita að nýjum og spennandi tækifærum. Við sjáum mikla möguleika í Slate sem er með ferska nálgun til að einfalda hugbúnaðarþróun sem oft reynist flókin og tímafrek. Með fjárfestingu okkar í Slate erum við stíga næstu skref í vegferð okkar sem fjárfestingafyrirtæki (e. Venture Studio), þar sem við sameinum þekkingu okkar í stafrænum lausnum og nýsköpun,” segir Ægir Þorsteinsson, framkvæmdastjóri Aranja.