Tveir kínverskir ríkisborgarar létu lífið og einn særðist í sjálfsmorðssprengjuárás skammt frá alþjóðaflugvellinum í Karachi í Pakistan í gærkvöldi. Samkvæmt björgunarsveitarmönnum slösuðust sjö aðrir og heyrðist sprengingin víða um borgina.

Skæruliðasamtökin Baloch Liberation Army hafa lýst yfir ábyrgð á árásinni en skotmarkið var bílalest sem flutti kínverskt starfsfólk raforkufyrirtækis, þar á meðal verkfræðinga og fjárfesta.

Tveir kínverskir ríkisborgarar létu lífið og einn særðist í sjálfsmorðssprengjuárás skammt frá alþjóðaflugvellinum í Karachi í Pakistan í gærkvöldi. Samkvæmt björgunarsveitarmönnum slösuðust sjö aðrir og heyrðist sprengingin víða um borgina.

Skæruliðasamtökin Baloch Liberation Army hafa lýst yfir ábyrgð á árásinni en skotmarkið var bílalest sem flutti kínverskt starfsfólk raforkufyrirtækis, þar á meðal verkfræðinga og fjárfesta.

Shehbaz Sharif forsætisráðherra Pakistans hefur fordæmt atvikið en árásir gegn Kínverjum í Pakistan hafa færst í aukana undanfarin misseri. Pakistanski herinn segir að árásirnar hafi það markmið að trufla samband milli ríkjanna tveggja.

Fyrr á þessu ári lýstu sömu samtök yfir ábyrgð á árás á pakistanska sjóherstöð rétt hjá Gwadar-höfninni, sem er fjármögnuð af Kína. Í mars á þessu ári létust einnig fimm kínverskir verkamenn og bílstjóri þeirra í sjálfsmorðssprengjuárás.

Í nóvember árið 2018 létust fjórir þegar BLA réðst á kínverska sendiráðið í Karachi. Sex mánuðum seinna réðst hópurinn á lúxushótel í Gwadar sem er gjarnan notað af kínverskum ríkisborgurum við höfnina. Í júní 2020 réðust skæruliðar einnig á kauphöllina í Pakistan en þar eiga kínversk félög 40% hlut.

Kínverska ríkisstjórnin hefur fjárfest tugi milljarða dala í China-Pakistan Economic Corridor, sem er hluti af Belti og braut-samstarfinu. Þróunin virðist hafa vakið gremju meðal Pakistana sem segjast græða lítið sem ekkert á þessum verkefnum.