Skæruliðar Húta í Yemen réðust í gær á flutningsskip í Rauðahafinu en árásin var sú fyrsta sem skæruliðarnir hafa gert á flutningsskip frá því í desember í fyrra. Samkvæmt fréttaflutningi Newsweek gæti árásin aukið líkur á endurnýjuðum hernaðarátökum.
Gríska flutningsskipið Magic Seas, sem sigldi undir fána Líberíu, varð fyrir árás skæruliða sem notuðust við eldflaugar, skotvopn og dróna sem búnir voru sprengiefnum.
Hútar lýstu yfir ábyrgð og sögðu árásina vera hluta af áframhaldandi stuðningi sínum við Palestínumenn í stríði þeirra gegn Ísraelsher á Gaza.
Árásin hefur vakið upp óhug þar sem ákveðin ró hefur verið við lýði í Rauðahafinu undanfarna mánuði. Fyrri árásir Húta leiddu til loftárása á Yemen frá Bandaríkjamönnum og öðrum ríkjum og eru áhyggjur um að nýjasta árásin muni enda með svipuðum hætti.
Hátt í 100 flutningsskip urðu fyrir árásum Húta í Rauðahafinu milli nóvember 2023 og janúar 2025. Af þeim árásum náðu skæruliðar að sökkva tvö skip og hafa fjórir starfsmenn flutningsskipafyrirtækja látið lífið.