„Iðnaður er stærsta atvinnugrein landsins og við trúum því að mestu vaxtartækifærin liggi þar. Ég held að það komi mörgum á óvart hve viðamikið umfang iðnaðarins er. Nærri einn af hverjum fjórum á íslenskum vinnumarkaði, eða um 47 þúsund manns, starfa í iðnaði og hann stendur undir 44% af útflutningstekjum landsins. Iðnaðurinn hefur vaxið á síðustu árum og þá sérstaklega hugverkaiðnaður, sem hefur fest sig í sessi sem fjórða stoðin í gjaldeyrisöflun þjóðarbúsins. Það eru gríðarleg vaxtartækifæri í hugverkaiðnaði , sem og í öðrum greinum iðnaðar, ekki síst vegna orkuskipta,“ segir Sigurður Hannesson, framkvæmdastjóri Samtaka iðnaðarins.
Hann bendir á að óstöðugleiki hafi verið eitt helsta einkennismerki íslensks hagkerfis í gegnum tíðina en hugverkaiðnaður hafi og geti leitt til aukins stöðugleika. „Í kringum 1960 var farið af stað í að sækja tækifæri þess tíma sem fólst í því að virkja fallvötnin og leita að stórum kaupanda af orkunni. Það jók stöðugleika og verðmætasköpun í hagkerfinu. Í hugverkaiðnaði voru svo fyrirtæki á borð við Marel og Össur ákveðnir brautryðjendur. Fyrir ekkert svo löngu síðan var oft talað um að núll til eitt fyrirtæki af slíkri tegund og stærðargráðu kæmist á legg á hverjum áratug. Það má segja að fyrsti áratugur 21. aldarinnar hafi verið áratugur fjármálamarkaða í atvinnulífinu. Annar áratugur var áratugur ferðaþjónustu en ég get nánast fullyrt að þriðji áratugurinn verði áratugur hugverkaiðnaðar. Enda erum við á þessum áratug ekki að sjá núll til eitt fyrirtæki komast á legg og verða stórt, heldur nokkur.“
Á Iðnþinginu fái viðstaddir einmitt að heyra sögu nokkurra slíkra fyrirtækja. „Þessi fyrirtæki verða til vegna drifkrafts frumkvöðlanna sem stofna þau sem þróa sínar hugmyndir og skapa úr þeim verðmæti. Annað sem skiptir ekki síður máli er hvernig stjórnvöld hafa fjárfest í þessari uppbyggingu í gegnum skattahvata vegna rannsókna- og þróunar. Þegar þetta tvennt fer saman uppskerum við sem samfélag ríkulega. Við ætlum að varpa ljósi á þetta á Iðnþinginu. Hvernig iðnaðurinn hefur þróast og orðið mjög stór hluti af íslensku efnahagslífi, en ekki síður hvernig þessi vaxtartækifæri líta út. Ekkert af þessu verður þó að veruleika nema með réttum mannauði, aukinni grænni orku og stórfelldri uppbyggingu, á íbúðarhúsnæði og innviðum.“
Hugverkaiðnaður verði stærsta stoðin
Sigurður segir mikla umræðu hafa átt sér stað í samfélaginu fyrir um tveimur áratugum um að þjóðin þyrfti að horfa til þess að byggja upp nýjar atvinnugreinar. Á þeim tíma hafi hins vegar verið fátt um svör um hvaða atvinnugreinar það ættu að vera. „Hugverkaiðnaðurinn festi sig svo í sessi sem ein af þessum nýju atvinnugreinum og í dag er hann ekki bara fjórða stoð útflutnings heldur teljum við góðar líkur á að hann verði verðmætasta stoðin þegar yfirstandandi áratugur er á enda. Hugverkaiðnaður er þegar orðin sú stoð sem skapar mest innlend verðmæti, vegna þess að velta hinna stoðanna er að mestu útflutningur meðan velta hugverkaiðnaðar er einnig að nokkru leyti innlend.“
Hann segir að fram undan sé einnig mikil uppbygging í öðrum greinum iðnaðar, framleiðsluiðnaði og mannvirkjagerð. „Miðað við þær áætlanir og stefnur sem gefnar hafa verið út af stjórnvöldum virðist mikið uppbyggingarskeið fram undan. Þar má t.d. nefna yfirlýsingu innviðaráðherra um uppbyggingu 35 þúsund íbúða næsta áratuginn sem verið er að fylgja eftir með samningum við sveitarfélög. Einnig má nefna markmið um að Ísland verði kolefnishlutlaust og óháð jarðefnaeldsneyti árið 2040. Því fylgja risavaxnar fjárfestingar og á vefnum orkuskipti.is, sem við hjá SI stöndum að ásamt Landsvirkjun, Eflu og Samorku, er umfang framkvæmda bara við orkuöflun og flutning metið á 800 milljarða króna. Full orkuskipti skapa einnig tækifæri í vetnis- og rafeldsneytisframleiðslu á Íslandi og eru fjölmörg slík verkefni í þróun. Loks má nefna samgönguáætlun og annað henni tengt.“
Á Iðnþinginu muni aðalhagfræðingur SI fara yfir það hvers vegna samtökin telji hagvaxtarhorfur á Íslandi bjartari en greiningaraðilar hafa spáð. „Annars vegar teljum við að útflutningur verði meiri og öðruvísi samsettur en spár gera ráð fyrir og hins vegar að fjárfestingar tengdar innviðaframkvæmdum verði meiri. Þegar þetta tvennt kemur saman má ætla að hagvöxtur geti orðið meiri en spáð er á næstu árum. Það er mjög jákvætt fyrir lífsgæði landsmanna og hið opinbera, sem þarf svo sannarlega að rétta rekstur sinn af,“ segir Sigurður.
Viðtalið birtist í sérblaðinu Iðnþing 2023. Áskrifendur geta lesið það í heild hér.