Ferðaþjónustufyrirtækið Arctic Adventures hagnaðist um 805 milljónir króna árið 2024, samanborið við 187 milljónir árið áður. Stjórn félagsins leggur til að ekki verður greiddur arður á árinu 2025, að því er kemur fram í nýbirtum ársreikningi.

Í skýrslu stjórnar segir að árið 2024 hafi einkennst af bæði innri og ytri vexti. Góður rekstrarbati hafi orðið á milli ára.

Rekstrartekjur félagsins jukust um 33% milli ára og námu 9,5 milljörðum króna. Rekstrarkostnaður jókst um 26% og var um 6,7 milljarðar króna.

Rekstrarhagnaður fyrir afskriftir og fjármagnsliði (EBITDA) jókst um 65% og var 1.770 milljónir króna, samanborið við 1.074 milljónir árið 2023. EBITDA-hlutfallið var 18,6% samanborið við 15,0% árið áður.

Eignir Arctic Adventures námu 14,2 milljörðum króna í árslok 2024 og eigið fé var um 6,8 milljarðar króna. Eiginfjárhlutfallið var 48%.

Lykiltölur / Arctic Adventures hf.

2024 2023
Rekstrartekjur 9.528 7.165
EBITDA 1.770 1.074
Afkoma 805 187
Eignir 14.178 11.667
Eigið fé 6.770 6.087
Meðalstöðugildi 261 232
- í milljónum króna.

Keyptu ST Holdings á milljarð

Þann 31. maí 2024 undirritaði Arctic Adventures samstæðan kaupsamning vegna kaupa á öllu hlutafé í ST Holding ehf. sem á m.a. Special Tours ehf., sem býður upp á hvalaskoðun og sjóævintýri frá miðbæ Reykjavíkur og Akureyri, ásamt Whales of Iceland ehf. sem rekur hvalasafnið í Reykjavík. ST Holdings hefur verið hluti af samstæðunni frá og með 1. júlí 2024.

Kaupin á ST Holding skýra að mestu 21% fjölgun á starfsfólki Arctic Adventures samstæðunnar milli ára. Á árinu 2024 störfuðu 322 starfsmenn að meðaltali í samstæðu Arctic Adventures í 261 stöðugildum samanborið við 266 starfsmenn í 232 stöðugildum á árinu 2023.

Arctic Adventures keypti einnig í fyrra jörðina Heiði í Skaftárhreppi, sem inniheldur Fjaðrárgljúfur, af Hverabergi ehf. og tengdum félögum. Arctic Adventures tók við rekstri svæðisins 1. janúar 2025.

Ferðaþjónustufyrirtækið tilkynnti fyrir rúmum mánuði síðan að það hefði náð samkomulagi um kaup á öllu hlutafé í Happy Campers ehf.

Viðskiptablaðið greindi frá því í fyrra að Arctic Adventures hefði selt höfuðstöðvar sínar að Köllunarklettsvegi 2 við Sundahöfn á 1.050 milljónir króna.

Fjárfestingarfélagið Stoðir var stærsti hluthafi Arctic Adventures í lok síðasta ársmeð 39,4% hlut. Þar á eftir komu framtakssjóðirnir Icelandic Tourism Fund (ITF) með 20,4% hlut og Freyja með 15,9% hlut.

Stærstu hluthafar Arctic Adventures í árslok 2025

Hluthafi Eignarhlutur
Stoðir hf. 39,4%
ITF 20,4%
Freyja framtakssjóður 15,9%
Numinous hf. 8,5%
JTG ehf. 6,6%
Landsbréf - Öndvegisbréf 2,5%
Landsbréf - Úrvalsbréf 2,5%
Bjarnar Invest ehf. 1,3%
Kristinn ehf. 1,3%
Arctic Ventures ehf. 0,9%