Ferðaþjónustufyrirtækið Arctic Adventures hefur keypt allt hlutafé í Happy Campers ehf.

Samkvæmt fréttatilkynningu eru kaupin eru liður í stefnu Arctic Adventures um að bjóða fjölbreyttari upplifanir og samþætta mismunandi þjónustur innan ferðaþjónustu undir einu þaki.

Velta Happy Campers var um einn milljarður króna á síðasta ári.

„Við erum spennt að sameina krafta okkar við Happy Campers og gera okkur kleift að bjóða viðskiptavinum okkar enn betri og fjölbreyttari þjónustu. Happy Campers fellur vel að starfsemi Arctic Adventures sem er eitt öflugasta og rótgrónasta ferðaþjónustufyrirtæki landsins,” segir Ásgeir Baldurs, forstjóri Arctic Adventures.

„Við óskum Arctic Adventures til hamingju með kaupin og óskum þeim velfarnaðar um komandi ár í landslagi íslenskrar ferðaþjónustu. Það hefur verið ævintýralega skemmtilegt ferðalag að byggja upp Happy Campers að blómlegu fjölskyldu fyrirtæki, fyrst sinnar tegundar á Íslandi, en núna er komið að kaflaskiptum hjá okkur,“ segir Herdís Jónsdóttir, stjórnarformaður Blue Mountain og Happy Campers.

Fyrirtækjaráðgjöf Íslandsbanka sá um söluferlið á Happy Campers, Lex veitti seljendum ráðgjöf og Logos var ráðgjafi kaupanda. Kaupin eru með fyrirvara um samþykki samkeppnisyfirvalda.