Arctic Adventures hefur keypt allt hlutafé í Kerfélaginu af Óskari Magnússyni, Ásgeiri Bolla Kristinssyni, Sigurði Gísla Pálmasyni og Jóni Pálmasyni, sem áttu hver sinn fjórðungshlut.

Helsta eign Kerfélagsins er Kerið í Grímsnesi sem hefur lengi verið vinsæll ferðamannastaður.

Arctic Adventures hefur keypt allt hlutafé í Kerfélaginu af Óskari Magnússyni, Ásgeiri Bolla Kristinssyni, Sigurði Gísla Pálmasyni og Jóni Pálmasyni, sem áttu hver sinn fjórðungshlut.

Helsta eign Kerfélagsins er Kerið í Grímsnesi sem hefur lengi verið vinsæll ferðamannastaður.

„Kerið er með merkilegustu náttúruperlum landsins. Við teljum að góðir möguleikar séu til staðar til frekari uppbyggingar við svæðið og jafnframt áframhaldandi náttúruverndar. Kerið er í alfaraleið og aðgengilegt til lengri eða skemmri skoðunarferða. Við fögnum því að hafa náð samningum um þessi kaup og hyggjumst vanda þar til uppbyggingar,“ segir Ásgeir Baldurs, forstjóri Arctic Adventures.

Í tilkynningu segir að það sé stefna Arctic Adventures að bjóða upp á sjálfbæra og vistvæna ferðaþjónustu en meðal þeirra ferðamannastaða sem félagið kemur að rekstri á má nefna Raufarhólshelli og Ísgöngin Into the Glacier í Langjökli.

„Allt hefur sinn tíma, við vorum búnir að eiga Kerið í 23 ár og ljóst að komið er að næsta kafla uppbyggingar á svæðinu. Við töldum það heppilegan tíma til að láta staðar numið svo nýir eigendur geti byggt upp til frambúðar eftir sínum hugmyndum,“ segir Óskar Magnússon, stjórnarformaður Kerfélagsins.