Arctic Green Energy hefur fest kaup á Mannvit Kft í Ungverjalandi, dótturfélagi Mannvits hf. Skrifstofur félagsins eru í Búdapest en Mannvit hefur veitt þjónustu og ráðgjöf í Ungverjalandi og nálægum löndum í Mið-Evrópu.

Félagið mun starfrækja Mannvit Kft. í Ungverjalandi áfram sem sjálfstætt ráðgjafarfyrirtæki, en gert er ráð fyrir að mikil samvirkni með aðkomu Arctic Green Energy á þessu sviði. Framkvæmdastjóri Mannvits í Ungverjalandi er Gábor Molnár og mun hann stýra félaginu áfram.

„Á undanförnum árum hefur nýting jarðvarma margsannað ágæti sitt sem endurnýjanleg, staðbundin og örugg auðlind og hefur eftirspurn eftir nýtingu jarðvarma í Ungverjalandi sem og öðrum löndum aukist mikið. Mannvit Kft býr yfir mikilli þekkingu og reynslu á nýtingu jarðvarma og mun eftir sem áður veita þjónustu sína og styðja við þróun verkefna í Ungverjalandi sem og á alþjóðlegum markaði,” segir Gábor.

Mannvit Kft. var stofnað árið 2007 en mikil eftirspurn er eftir varmaorku frá endurnýjanlegum orkugjöfum í Evrópu. Bruni á jarðefnaeldsneyti með tilheyrandi losun gróðurhúsalofttegunda er algengasta aðferðin við húshitun í álfunni.

„Orkuskipti í hitun og kælingu eru stærsta úrlausnarefnið til að ná árangri í loftslagsmálum. Jarðvarmi er mikilvægur þáttur í þeirri lausn, eins og við höfum sýnt fram á í um 800 jarðhitaverkefnum sem við erum með í rekstri og þróun,” segir Sigurður Atli Jónsson, forstjóri Arctic Green Energy.