Fjármálaráðuneytið hefur ráðið Arctica Finance sem sjálfstæðan fjármálaráðgjafa til að veita ráðuneytinu þjónustu og ráðgjöf varðandi skipulagningu og yfirumsjón á fyrirhuguðu markaðssettu útboði eða útboðum eignarhluta ríkisins í Íslandsbanka.
„Fyrirvari er um að samningur aðila um fyrrgreinda þjónustu muni falla niður ef frumvarp um ráðstöfun eignarhlutar í Íslandsbanka verður ekki að lögum,“ segir í tilkynningu fjármálaráðuneytisins.
Fjármálaráðherra birti drög að frumvarpi um ráðstöfun eignarhlutar í Íslandsbanka í febrúar síðastliðnum. Frumvarpið var lagt fyrir þingið í lok mars og er nú til umfjöllunar í efnahags- og viðskiptanefnd eftir fyrstu umræðu á Alþingi.
Ríkisstjórnin áformar að selja eftirstandandi 42,5% hlut ríkissjóðs í Íslandsbanka í ár og á næsta ár. Lagt er upp með að selja eignarhlutinn með almennu hlutafjárútboði þar sem einstaklingar munu njóta forgangs.