Fjármálaráðuneytið hefur fallist á ósk verðbréfafyrirtækisins Arctica Finance um að verða leyst undan því verkefni að veita ráðuneytinu þjónustu og ráðgjöf varðandi skipulagningu og yfirumsjón á fyrirhuguðum útboðum eignarhluta ríkisins í Íslandsbanka.

Fjármálaráðuneytið hefur fallist á ósk verðbréfafyrirtækisins Arctica Finance um að verða leyst undan því verkefni að veita ráðuneytinu þjónustu og ráðgjöf varðandi skipulagningu og yfirumsjón á fyrirhuguðum útboðum eignarhluta ríkisins í Íslandsbanka.

„Þróun mála í öðrum verkefnum Arctica Finance hefur gert það að verkum að félagið telur sér erfitt um vik að veita áframhaldandi ráðgjöf um útboðin,” segir í tilkynningu fjármálaráðuneytisins.

Þess má geta að Arctica Finance er sérstakur fjárhagslegur ráðgjafi hóps lífeyrissjóða vegna ágreinings við ríkið um uppgjör vegna eigna og skulda ÍL-sjóðs.

Auglýsa eftir umsjónaraðilum

Í tilkynningunni segist ráðuneytið hafa hafið undirbúning á fyrirhuguðu almennu hlutafjárútboði vegna sölu á hlut ríkissjóðs í Íslandabanka.

Ríkiskaup hafa nú birt auglýsingu fyrir hönd ráðuneytisins, þar sem auglýst er eftir einum eða fleiri umsjónaraðilum útboðsins, bæði á innlendum og/eða erlendum markaði. Áhugasömum er boðið að senda inn áhugayfirlýsingu fyrir 9. júlí næstkomandi.

Á sunnudaginn síðasta samþykkti Alþingi lög um ráðstöfun eignarhlutar í Íslandsbanka hf. sem fela í sér að hlutur ríkisins í bankanum verði seldur í markaðssettu útboði eða útboðum.