Nú er aðalfundarhrina skráðra félaga í Kauphöllinni þar sem hvert félagið á fætur öðru kynnir afkomu síðastliðins árs. Samanlagðar arðgreiðslur sem stjórnir félaga á aðalmarkaði hafa lagt til það sem af er ári nema rúmlega 80 milljörðum króna.
Til samanburðar námu samanlagðar arðgreiðslur félaga á aðalmarkaði rúmlega 51 milljarði króna á árinu 2024 vegna ársins 2023, og 68,9 milljörðum króna á árinu 2023 vegna ársins 2022.
Þrjú félög eiga eftir að skila inn uppgjöri vegna ársins 2024 og þar með tilkynna um arðgreiðslur á árinu. Ísfélagið skilar inn ársuppgjöri 27. mars. Ölgerðin skilar síðan inn uppgjöri 10. apríl og Hagar 15. apríl.
Þegar litið er til arðs á hlut trónir JBT Marel þar á toppnum af félögum á aðalmarkaði. Félagið greiðir arð ársfjórðungslega, 0,1 Bandaríkjadal á hlut í hvert skipti, sem jafngildir samtals 55 krónum á hlut yfir árið.
Þar á eftir kemur Eimskip, sem greiðir 13,33 krónur á hlut í arð. Félagið hefur á undanförnum árum verið það félag sem greiðir hvað mestan arð á hvern hlut. Á eftir Eimskip koma bankarnir, Arion banki með 11,5 krónur á hlut, Íslandsbanki með 6,43 krónur á hlut og Kvika með 4,73 krónur á hlut.
Arðgreiðsluhlutfallið hæst hjá Kviku banka
Heildararðgreiðslur félaganna segja þó einungis hluta sögunnar, en fjárfestum er gjarnan annt um svokallað arðgreiðsluhlutfall (e. dividend yield), sem lýsir ávöxtun þeirra af hlutabréfafjárfestingu sinni í formi arðgreiðslna – reiknað sem arður á hlut í hlutfalli við verð hlutarins.
Þegar tekið er mið af gengi bréfanna í lok árs 2024 er arðgreiðsluhlutfallið hæst hjá Kviku banka, 23,12 prósent. Þar á eftir kemur Skel með arðgreiðsluhlutfall upp á tæp 18%.
Á eftir Kviku og Skel kemur Eik fasteignafélag með rúmlega 7% hlutfall, en Arion banki, Sjóvá og Íslandsbanki fylgja þar skammt á eftir. Lægst eru arðgreiðsluhlutföllin hjá JBT Marel (0,31 prósent), Hampiðjunni (1,07 prósent) og Heimum (1,1 prósent). Þá nemur hlutfallið 1,20% hjá Skaga, 1,36% hjá Síldarvinnslunni, 1,48% hjá Símanum og 1,61% hjá Festi.
Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta lesið fréttina í heild hér.