Nú er aðalfundarhrina skráðra félaga í Kauphöllinni þar sem hvert félagið á fætur öðru kynnir afkomu síðastliðins árs, en fyrirhugað er að greiða hluthöfum félaga á aðalmarkaði um 70 milljarða króna á þessu ári.

Af þeim félögum sem hafa samþykkt að greiða hluthöfum arð á árinu er arðgreiðsluhlutfallið hæst hjá Símanum, 34,8 prósent og hjá Origo, 16,2 prósent, en félögin seldu dótturfélögin Mílu og Tempo á tugi milljarða króna á síðasta ári.

Á eftir Símanum og Origo kemur Arion banki með 5,8 prósent arðgreiðsluhlutfall, Eimskip 5,5 prósent og Íslandsbanki með 5 prósent.

Arðgreiðsluhlutfall (e. dividend yield) lýsir ávöxtun hluthafa af fjárfestingu sinni í formi arðgreiðslna. Hlutfallið er reiknað sem arður á hlut í hlutfalli við verð hlutarins.

Snorri Jakobsson, greinandi hjá Jakobsson Capital, bendir á að arðgreiðslur fjármála- og tryggingarfélaganna séu lægri á þessu ári samanborið við síðasta ár. Þá séu miklar arðgreiðslur hjá fasteignafélögunum.

„Þar eru til dæmis hluthafar Eikar að fá 5,5% arðgreiðsluhlutfall og þar að auki eru arðgreiðslur fasteignafélaganna verðtryggðar. Frá sjónarhóli fjárfestis er það því í grunninn eins og að kaupa 5% verðtryggt skuldabréf, þar sem tekjur fasteignafélaganna eru tengdar við vísitölu neysluverðs.“

Arðgreiðsluhlutfall og arður á hlut

Arðgreiðsluhlutfall Arður á hlut
Síminn 34,8% 3,81
Origo 16,2% 14,6
Arion banki 5,8% 8,5
Eik fasteignafélag 5,5% 0,58
Eimskip 5,5% 31
Íslandsbanki 5% 6,15
Sjóvá 4,7% 1,61
Brim 3,3% 2,8
VÍS 2,8% 0,55
Reitir 2,3% 1,89
Kvika banki 2% 0,4
Skel 2% 0,31
Sýn 2% 0,11
Festi 1,7% 3
Síldarvinnslan 1,63% 1,86
Marel 0,4% 2,3

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu, sem kom út fimmtudaginn 30. mars. Áskrifendur geta lesið fréttina í heild hér.