Franska sjóðastýringafyrirtækið Ardian hefur komist að samkomulagi um kaup á meirihluta í þremur verðmætum fasteignum í París fyrir 837 milljónir evra, eða yfir 120 milljarða króna, af franska hátískufyrirtækinu Kering, sem á m.a. Gucci, Balenciaga og Yves Saint Laurent.
Ardian kaupir 60% hluta í fasteignasafninu sem inniheldur Hôtel de Nocé og tvær byggingar á Avenue Montaigne götunni sem hýsir fjölda tískuverslana.
Hlutabréfaverð Kering hefur lækkað um meira en helming frá ársbyrjun 2023 en rekstur fyrirtækisins hefur gengið erfiðlega á síðustu misserum, ekki síst vegna samdráttar á Asíumarkaði.
Sjóðir í rekstri Ardian eiga m.a. Mílu og gagnaversfyrirtækið Verne, sem rekur stórt gagnaver í Reykjanesbæ. Í tilkynningu Kering segir að viðskiptin veiti Ardian tækifæri til að stækka frekar við fasteignasafn sitt á verðmætum svæðum í París.
Gert er ráð fyrir að viðskiptunum ljúki á fyrsta ársfjórðungi 2025.