Franska sjóðastýringafyrirtækið Ardian hefur lagt til, sem hluti af sáttaviðræðum við Samkeppniseftirlitið (SKE), að heildsölusamningur á milli Mílu og Símans verði 17 ár í stað 20 ára að lokinni sölu Símans á Mílu til Ardian. Á móti kemur verði fyrsta mögulega framlengingin 8 ár í stað 5 ára. Þetta kemur fram í skjali sem Samkeppniseftirlitið birti í dag.
Ardian tilkynnti Símanum um síðustu helgi að það væri ekki reiðubúið að ljúka kaupum á Mílu á grundvelli óbreytts kaupsamnings vegna íþyngjandi samkeppnisskilyrða sem sett voru fram í kjölfar þess að SKE tilkynnti samrunaaðilum um frummat sitt um að viðskiptin raski samkeppni og verði ekki samþykkt án skilyrða og/eða frekari upplýsinga.
Sjá einnig: Áhyggjur eftirlitsins „talsvert yfirdrifnar“
SKE lýsir sérstaklega yfir áhyggjum á lengd heildsölusamningsins og telur hann geta falið í sér of þétt viðskiptasamband Símans og Mílu eftir að viðskiptunum lýkur. Þá óttast SKE að keppinautar Mílu yrðu að verulegu leyti útilokaðir frá viðskiptum við stærsta veitanda fjarskiptaþjónustu á landinu.
Auk breytingar á lengd heildsölusamningsins leggur Ardian til að gerðar verði tilteknar breytingar, einkum á ákvæðum um samstarf Símans og Mílu og ákvæðum um verðlagningu. Þá eru settar fram tillögur að skilyrðum sem tryggja eiga aðgang að kerfum og þjónustu Mílu, aðgreiningu þjónustuþátta, upplýsingagjöf til viðskiptavina vegna breytinga á kerfum eða þjónustu Mílu og eftirlit og eftirfylgni með skilyrðum.
Tuttugu viðskipti byggt upp á svipaðan hátt
Í svari til SKE bendir Ardian á meira en tuttugu dæmi um viðskipti sem hafa varðað kaup og sölu á fjarskiptainnviðum í Evrópu sem öll hafa verið byggð upp á mjög svipaðan hátt og það fyrirkomulag sem er fyrir hendi varðandi kaupin á Mílu af Símanum.
Umrædd dæmi hafi varðað fastanet (e. fixed line network) helstu fyrrum einokunarfyrirtækja í Evrópu - t.d. Deutsche Telekom, Telefonica, Orange, Telecom Italia, Altice, Telia, og Eir - hvert um sig með sína umtalsverðu markaðshlutdeild í smásölu- og heildsölumörkuðum. Meðal nefndra dæma eru einnig viðskipti um farsímainnviði þessara fyrirtækja, sem og annarra helstu farnetsrekenda í Evrópu t.d. Vodafone, Iliad, Hutchison, Bouygues.
Ardian segir að viðskiptafyrirkomulagið í öllum þessum viðskiptum samanstandi af sömu atriðum til að gera kaupanda kleift að endurheimta fjárfestingu sína:
- Nægileg skuldbinding í tímalengd
- Nægileg skuldbinding um magn viðskipta og/eða einkakaupafyrirkomulag, með viðeigandi takmörkuðum frávikum
- Möguleiki fyrir heildsöluþjónustuveitandann að gera tilboð fyrir viðbótarþjónustu sem er utan upphaflega skilgreindra marka viðkomandi þjónustu
- Tenging á verðum við staðbundnar vísitölur sem endurspegla verðbólgu
Ardian segir að flest öll þessara viðskipta hafi einnig falið í sér skuldbindingar samningsaðila um að hefja ekki samkeppnisstarfsemi á smásölu- eða heildsölumörkuðum, eftir því sem við á, sem og skuldbindingar um að heildsöluþjónustuveitandinn bjóði öðrum viðskiptavinum opinn aðgang á jafnræðisgrundvelli og bjóði samskonar kjör til lykilviðskiptavinarins (e. anchor customer) og til annarra viðskiptavina út gildistíma samningsins.
„Efnisatriði þessara viðskiptasamninga hafa verið skoðuð af viðeigandi samkeppnisyfirvöldum í nánast öllum þeim viðskiptum sem hafa verið nefnd.“
SKE líti alfarið framhjá efnahagslegum hvötum
Til að lesa meira
Hægt að er kaupa áskrift að Viðskiptablaðinu, Fiskifréttum og Frjálsri verslun hér.
Verð frá 2.749 kr. á mánuði