Franska sjóðastýringafélagið Ardian hefur náð samkomulagi um að kaupa út þrjá meðeigendur sína í Heathrow flugvellinum í London.

Sjóður í stýringu Ardian, sem var þegar stærsti hluthafi flugvallarins, tilkynnti í gær um kaup á 10% hlut í Heathrow og stækkaði þar með eignarhlut sinn úr 22,6% í 32,6%.

Á söluhliðinni var spænska innviðafjárfestingarfélagið Ferrovial, kanadíski lífeyrissjóðurinn Caisse de dépôt et placement du Québec (CDPQ) og breski lífeyrissjóðurinn Universities Superannuation Scheme. Ferrovial var meirihlutaeigandi í Heathrow í 17 ár en hefur nú lokið aðkomu sinni að rekstri flugvallarins.

Kaupverðið var ekki gefið upp en heimildir Financial Times herma að það hafi hljóðað upp á 870 milljónir punda, eða yfir 150 milljarða króna.

Í umfjöllun FT segir að samkomulagið endurspegli trú Ardian, eins stærsta fjárfestingarfélags Evrópu, á vaxtarmöguleikum Heathrow sem eina skilgreinda tengiflugvelli (e. hub airport) Bretlands. Heathrow vinnur nú að því að leggja þriðju flugbrautina á vellinum.

Ardian keypti 90% hlut í Mílu á móti 10% hlut lífeyrissjóða árið 2022. Þá keypti sjóður í stýringu franska félagsins gagnaversfyrirtækið Verne Global, sem á og rekur eitt stærsta gagnaver landsins á Ásbrú.