Arion banki hagnast um 7,8 milljarða króna eftir skatta á fyrsta ársfjórðungi, samanborið við 4,4 milljarða á sama tímabili í fyrra. Arðsemi eiginfjár var 12,8% á fyrstu þremur mánuðum ársins, samanborið við 9,1% á fyrsta fjórðungi 2024.

Arion banki birti uppgjör fyrir fyrsta ársfjórðung eftir lokun Kauphallarinnar í dag.

„Afkoma Arion banka á fyrsta ársfjórðungi er í samræmi við markmið þrátt fyrir ýmsar áskoranir í ytra umhverfi,“ segir Benedikt Gíslason, bankastjóri Arion banka.

„Það var góður meðbyr á nær öllum sviðum starfseminnar en styrkur Arion samstæðunnar er ekki síst fjölbreytni þjónustunnar sem nær til flestallra sviða fjármála heimila, fyrirtækja og fjárfesta.“

Kjarnatekjur Arion, þ.e. hreinar vaxta-, þóknana- og tryggingatekjur án rekstrarkostnaðar tryggingastarfseminnar, á fyrsta fjórðungi jukust um 15,4% milli ára.

Færa upp virði Arnarlandsins

Hreinar matsbreytingar á fjárfestingareignum á fyrsta ársfjórðungi námu tæplega 3,5 milljörðum króna, samanborið við 4 milljónir króna á sama tímabili í fyrra. Í skýrslu stjórnar í árshlutareikningi Arion banka eru matsbreytingarnar einkum raktar til Arnarlands í Garðabæ.

Landey ehf., fasteignaþróunarfélag í eigu Arion, á 51% hlut í Arnarlandi ehf. sem heldur utan um 9 hektara Arnarlandið á norðanverðum Arnarneshálsi.

Í tilkynningu Arion segir að nettó áhrif eftir skatta af matsbreytingunni á Arnarlandi á samstæðu Arion banka sé um 1,3 milljarðar króna.

„Það náðist ánægjulegur áfangi á fjórðungnum þegar deiliskipulag Arnarlandsins í Garðabæ var samþykkt. Markmiðið með nýju deiliskipulagi er að skapa líflegt hverfi með íbúðum, þjónustu og atvinnustarfsemi. Hverfið verður fjölbreytt og er gert ráð fyrir um 450 íbúðum, nærþjónustu og starfsemi heilsuklasa þar sem áhersla er á fyrirtæki tengd heilsu og hátækni,“ segir Benedikt.

Aðrar eignir Landeyjar eru lóðir og fasteignir á Blikastaðalandi í Mosfellsbæ og lóð og verksmiðjuhúsnæði í Helguvík. Benedikt segir markmið Landeyjar vera að auka verðmæti eigna sinna með áframhaldandi þróun og uppbyggingu þessara svæða.