Arion banki hagnaðist um 7,9 milljarða króna á þriðja árs­fjórðungi sem er hækkun úr 6,1 milljarði á sama tíma­bili í fyrra.

Arð­semi eigin­fjár var 16,1% á fjórðungnum sem er tölu­vert hærra en arð­semi hinna kerfis­lega mikilvægu bankanna.

Arð­semi Arion banka á fyrstu sex mánuðum ársins nam 10,2% sem var 2,8% undir arð­semis­kröfum stjórnar bankans en eftir upp­gjör þriðja árs­fjórðungs fór arð­semi á fyrstu níu mánuðum ársins upp í 12,2%.

„Af­koma Arion banka á þriðja árs­fjórðungi er góð og í samræmi við okkar áætlanir. Sér­stak­lega er ánægju­legt að sjá hve vel starf­semi Varðar trygginga gekk á fjórðungnum en um er að ræða einn besta árs­fjórðung í sögu fyrir­tækisins. Aðrir þættir í okkar kjarna­starf­semi gengu sömu­leiðis vel og skila góðri af­komu. Óhætt er að segja að áhersla okkar á fjöl­breytta fjár­málaþjónustu og þar með fjöl­breyttar tekju­stoðir stuðli að ákveðnum stöðug­leika í okkar starf­semi. Sem fyrr er eigin- og lausa­fjár­staða bankans sterk og vel yfir kröfum eftir­lit­saðila,“ segir Bene­dikt Gísla­son, banka­stjóri Arion banka.

Vaxta­munur á vaxta­berandi eignum bankans var 3,1% á fjórðungnum sem er 0,1% hækkun á milli ára.

Sam­kvæmt bankanum var fjórðungurinn góður í þóknana­starf­semi sem skilaði 3,9 milljörðum króna sem er um 100 milljónum meira en á sama tíma­bili í fyrra. Þá átti tryggingarfélagið Vörður besta fjórðung í sögu félagsins og skilaði 1,7 milljarða króna hagnaði.

Eigin­fjár­hlut­fall bankans (CAR-hlut­fall) var 23,2% og hlut­fall al­menns eigin­fjárþáttar 1 var 18,8% í lok septem­ber. Hlut­föllin taka til­lit til óendur­skoðaðs hagnaðar fjórðungsins að teknu til­liti til væntrar arð­greiðslu, sem nemur 50% af hagnaði í samræmi við arð­greiðslu­stefnu bankans.

Eigin­fjár­hlut­fall sam­kvæmt reglum Fjár­mála­eftir­lits Seðla­banka Ís­lands var 22,8% í lok septem­ber og hlut­fall eigin­fjárþáttar 1 18,3%.

„Við höldum áfram að setja okkur í sam­band við við­skipta­vini sem eru með íbúðalán sem eru að fara af föstum vöxtum til að fara yfir þá val­kosti sem í boði eru til að lækka greiðslu­byrði. Þetta er hópur sem hefur notið afar hagstæðra vaxta á tíma­bili hárra stýri­vaxta en þarf nú að takast á við hærri greiðslu­byrði. Ýmsir kostir eru í boði en að vissu leyti má segja að það sé uppi óheppi­leg staða því stýri­vextir eru enn 9% á sama tíma og verðbólga hefur lækkað niður í 5,1%. Munurinn þarna á milli er of mikill sem leiðir til þess að raun­vextir, og þar með verð­tryggðir vextir, eru sögu­lega háir. Verð­tryggð íbúðalán hafa verið það skjól sem mörg heimili hafa leitað í og því mikilvægt að stýri­vextir haldi áfram að lækka svo raun­vaxta­stigið hér á landi lækki. Núverandi vaxta­um­hverfi er þess valdandi að við erum varfærin í okkar niðurfærslum,“ segir Bene­dikt.

Um 18 milljarða hagnaður á árinu

Á fyrri árs­helmingi nam hagnaður Arion banka 17,8 milljörðum króna sem er lækkun úr 19,5 milljörðum á sama tíma­bili í fyrra.

Sem fyrr segir var arð­semi eigin­fjár 12,2% á fyrstu níu mánuðunum saman­borið við 13,9% í fyrra.

Hreinar þóknana­tekjur námu 11,2 milljörðum á fyrstu níu mánuðum ársins og drógust saman um 10,1% frá fyrra ári.

Rekstrar­kostnaður hækkar um 10,4% saman­borið við sama tíma­bil 2023 Efna­hags­reikningur bankans hefur stækkað um 5,2% á árinu.