Hagnaður og arðsemi ÁTVR lækkaði þriðja árið í röð og hefur ekki verið minni frá árinu 2008. ÁTVR birti ársreikning 2023 á heimasíðu sinni í dag.

Hagnaður ríkisfyrirtækisins dróst saman um 11% milli ára og nam 779 milljónum króna á árinu 2023 samanborið við 877 milljónir árið áður. Arðsemi eigin fjár var 11,2% í fyrra, samanborið við 13,3% árið 2022 og 30% árið 2021.

Tekjur ÁTVR jukust um 3,3% og námu 42,5 milljörðum króna í fyrra. Rekstrarhagnaður fyrir afskriftir lækkaði um 13% milli ára og nam 1,1 milljarði.

Selt magn lækkar töluvert

Sala áfengis um 34,4 milljarðar króna sem samsvarar 4,5% aukningu frá árinu 2022. Sé hins vegar horft til sölu í þúsundum lítra þá dróst heildarsala áfengis saman um 2% milli ára og var um 23.688 þúsund lítrar. Sala í lítrum dróst saman í öllum helstu flokkum.

Í skýrslu forstjóra í ársreikningi félagsins kemur fram að viðskiptavinafjöldi Vínbúðanna jókst um 0,5% milli ára og var um 5,2 milljónir í fyrra.

Sala tóbaks dróst saman um 1,9% milli ára og nam rúmum 8 milljörðum. Sala tóbaks hjá ÁTVR hefur dregist saman undanfarin þrjú ár og nam til samanburðar yfir 10 milljörðum árið 2020.

Sala vindlinga í magni dróst saman um 8,8% og nam 682 þúsundum kartonum. Selt magn neftóbaks var 10.192 kg. og var 13,6% samdráttur frá fyrra ári.

Stjórnunar- og skrifstofukostnaður jókst um 119 milljónir

Rekstrargjöld ríkisfyrirtækisins jukust um 1,6 milljarða, eða 3,9%, milli ára og námu 41,8 milljörðum í fyrra. Þar af var stjórnunar- og skrifstofukostnaður 570 milljónir, samanborið við 451 milljón árið 2022.

Laun og launatengd gjöld námu 3,7 milljörðum og jukust um 9,2% milli ára. Ársverkum fjölgaði úr 329 í 333.

Í skýrslu og áritun forstjóra er kemur fram að unnið var að endurbótum á húsnæði ÁTVR að Stuðlahálsi í Reykjavík og undirbúningi stækkunar á dreifingarmiðstöðinni í fyrra.

Ýmsar endurbætur hafi verið gerðar í Vínbúðunum Seyðisfirði, Borgarnesi og Vestmannaeyjum auk þess sem Vínbúðirnar Búðardal og Hólmavík voru endurnýjaðar frá grunni. Vínbúðin Vík í Mýrdal flutti í nýtt húsnæði og hafist var handa við framkvæmdir við nýja Vínbúð að Álfabakka í Reykjavík. Einnig var unnið að uppfærslu upplýsingakerfa ÁTVR. Vegna eldgoss var Vínbúðinni Grindavík lokað.

Eignir ÁTVR voru bókfærðar á 9 milljarða króna í árslok 2023 og eigið fé var um 7,2 milljarðar. Félagið greiddi 500 milljónir króna í arð til ríkissjóðs í fyrra líkt og árið áður.