Landsbankinn hagnaðist um 2,3 milljarða króna á öðrum ársfjórðungi, samanborið við 6,5 milljarða króna á sama tímabili í fyrra. Arðsemi eiginfjár á öðrum fjórðungi ársins var 3,5%.
Í tilkynningu bankans segir að meðal ástæðna fyrir því að arðsemin hafi verið undir 10% arðsemismarkmiði bankans, sé lækkun á gangvirði hlutabréfaeignar bankans. Hrein afkoma af fjáreignum og -skuldum á gangverði var neikvæð um 2,7 milljarða en var jákvæð um 1,3 milljarða árið áður. Landsbankinn á 14,1% hlut í Eyri Invest, stærsta hluthafa Marels, en gengi hlutabréfa Marels hefur lækkað um 28% í ár.
Sjá einnig: Takk fyrir aðhaldið, en það er meira undir yfirborðinu
Hreinar þjónustutekjur á fjórðungnum jukust um 24% frá fyrra ári „einkum vegna vaxandi umsvifa í eignastýringu og markaðsviðskiptum“ og námu 2,8 milljörðum. Hreinar vaxtatekjur jukust um 8% „aðallega vegna stærra útlánasafns og hærra vaxtastigs“ og námu 11,2 milljörðum. Markaðshlutdeild bankans á einstaklingsmarkaði mælist nú 39,3%.
„Undanfarið hafa mjög margir viðskiptavinir fest vexti á óverðtryggðum íbúðalánum. Í árslok 2021 voru 29% íbúðalána með fasta óverðtryggðra vexti en hlutfallið var komið í 42% þann 30. júní sl,“ segir í tilkynningunni.
Þá kemur fram að útlán til fyrirtækja hafi aukist um 33 milljarða króna á fyrri helmingi ársins, ef gengisáhrifa hefði ekki gætt, aðallega til fyrirtækja í ferðaþjónustu og sjávarútvegi.
Kostnaður sem hlutfall af tekjum (K/T) á fyrri helmingi ársins var 52%, samanborið við 43,7% á fyrstu sex mánuðum síðasta árs.
Heildareignir Landsbankans námu 1.728 milljörðum króna í lok júní og eigið fé var 267,7 milljarðar króna. Eiginfjárhlutfall samstæðunnar, reiknað samkvæmt ákvæðum laga um fjármálafyrirtæki, var 24,9%.
Lilja Björk Einarsdóttir, bankastjóri Landsbankans:
„Það er kraftur í bankanum og það sést meðal annars á þeim fjölda nýjunga sem við höfum kynnt að undanförnu. Appið er í stöðugri þróun, verðbréf í appi hafa slegið í gegn og rafræn þinglýsing íbúðalána var frábær áfangi. Markaðshlutdeild bankans heldur áfram að aukast og kannanir sýna að viðskiptavinir eru mjög ánægðir með þjónustuna og að tryggð við bankann hefur aukist.
Eins og uppgjörið ber með sér er rekstur bankans traustur og stöðugur en sveifluliðir tengdir hlutabréfamörkuðum draga úr hagnaði það sem af er ári. Vaxtatekjur aukast í takt við aukin umsvif og þjónustutekjur halda áfram að vaxa, einkum vegna góðs árangurs í eignastýringu og markaðsviðskiptum sem byggir á skýrri stefnu bankans. Rekstrarkostnaður lækkar örlítið frá sama tímabili 2021 en hann hefur verið stöðugur árum saman.
Við höfum haldið úti öflugri lánastarfsemi. Útlán til fyrirtækja jukust um 33 milljarða króna á fyrri árshelmingi, ef horft er framhjá gengisáhrifum. Mesta aukningin var hjá útflutningsgreinum, bæði ferðaþjónustu og sjávarútvegi, sem er skýrt merki um styrk þessara atvinnugreina. Útlán vegna uppbyggingar á íbúðarhúsnæði eru áfram stór þáttur í útlánastarfsemi bankans en í byggingargeiranum er hringrás útlána og endurgreiðslna hraðari sem veldur því að heildarútlán eru í jafnvægi. Við aukum framlag til að mæta mögulegri virðisrýrnun sem helst stafar af aukinni áhættu tengdri hærri verðbólgu og vaxtastigi. Almennt er staða lántaka í dag mjög góð og lítið um vanskil. Við erum með fjölbreytt úrræði til að aðstoða viðskiptavini sem lenda í fjárhagslegum skakkaföllum og hvetjum viðskiptavini til að vera í sambandi við bankann til að fá ráðgjöf eða aðstoð.
Bankinn hefur lengi lagt áherslu á sjálfbærni og nýtt mat frá alþjóðlega matsfyrirtækinu Sustainalytics staðfestir annað árið í röð að það er hverfandi hætta á að bankinn verði fyrir fjárhagslegu tjóni vegna umhverfismála, félagslegra þátta og stjórnarhátta. Bankinn er þar með meðal fremstu banka í Evrópu á þessu sviði. Þetta er mikilvæg niðurstaða og treystir orðspor Landsbankans. Það er líka ánægjulegt að sjá hversu mörg fyrirtæki eru farin að huga að sjálfbærni því þannig treysta þau reksturinn til framtíðar og stuðla að því að auðlindir séu nýttar vel og á eins ábyrgan hátt og kostur er. Við höldum áfram að veita sjálfbærnimerki Landsbankans til þeirra fyrirtækja sem uppfylla skilyrði um sjálfbæra fjármögnun.
Árangur bankans byggir á traustum grunni og frábæru starfsfólki. Við viljum að vinnustaðurinn sé lifandi og skemmtilegur en líka að starfsfólk hafi sveigjanleika og geti sinnt starfinu í fjarvinnu til lengri eða skemmri tíma þegar það hentar báðum aðilum. Á síðasta ársfjórðungi kynntum við ný viðmið um fjarvinnu og sveigjanleika sem mælast virkilega vel fyrir. Einnig ákváðum við að tryggja starfsfólki í fæðingarorlofi 80% af launum sem kemur sér vel fyrir ungt fólk.
Ég er ánægð með rekstrarniðurstöðuna. Við ætlum að ná markmiði um 10% arðsemi jafnframt því að bjóða viðskiptavinum góð og samkeppnishæf kjör. Við leggjum áherslu á að einfalda viðskiptavinum lífið með snjöllum lausnum, góðu aðgengi að ráðgjöf og styðja vel við fyrirtækjarekstur og fjárfestingar. Við erum Landsbanki nýrra tíma, banki sem er nútímalegur en með mannlega nálgun. Það skilar sér í traustu viðskiptasambandi og gerir Landsbankann að frábærum samstarfsaðila.“