Íslandsbanki hagnaðist um 5,2 milljarða króna eftir skatta á fyrsta ársfjórðungi, samanborið við 5,4 milljarða hagnað á sama tímabili í fyrra. Arðsemi eigin fjár hjá Íslandsbanka á fjórðungnum nam 9,4% á ársgrundvelli, en til samanburðar var hún 9,8% á fyrsta fjórðungi 2024.

Íslandsbanki birti uppgjör fyrir fyrsta ársfjórðung eftir lokun Kauphallarinnar í dag.

Jón Guðni Ómarsson, bankastjóri Íslandsbanka, bendir á í uppgjörstilkynningu bankans að afkoman hafi verið um 3% yfir meðalspám greinenda.

„Fyrsti ársfjórðungur 2025 einkenndist af talsverðum sveiflum á alþjóðlegum mörkuðum og ákveðin óvissa ríkir um áhrif hækkunar tolla. Óvissan hefur haft áhrif á hlutabréfamarkaðinn hér heima og lækkaði arðgreiðsluleiðrétt úrvalsvísitala OMX Iceland 15 um 7,7% á fyrsta ársfjórðungi,“ segir Jón Guðni.

Neikvæðar fjármunatekjur lita afkomuna

Rekstrartekjur Íslandsbanka drógust saman um 4,1% milli ára og námu 15.534 milljónum króna á fyrsta fjórðungi.

Vaxtatekjur bankans jukust um tæp 7%, samanborið við sama ársfjórðung í fyrra og þóknanatekjur um tæp 2%. Neikvæð afkoma fjármunatekna, sem nemur 986 milljónum króna, hafði áhrif á afkomu bankans á fjórðungnum.

Aftur á móti var virðisrýrnun fjáreigna aðeins um 3 milljónir króna á fyrsta ársfjórðungi 2025 samanborið við virðisrýrnun sem nam 704 milljónum króna á sama tímabili í fyrra.

Alþingi samþykkti í dag breytingar á lögum um ráðstöfun eignarhlutar ríkisins í Íslandsbanka.

Fjármálaráðherra sagði um helgina að stefnt væri að næsta útboð á hlut ríkisins í Íslandsbanka fari fram á næstu vikum, en undirbúningur hefur staðið yfir undanfarna mánuði hjá ráðgjöfum ríkisins og umsjónaraðila útboðsins.

„Bankinn hefur stutt við þessa vinnu og veitt upplýsingar um bankann eins og tilefni hefur verið til. Þá höfum við lagt kraft og metnað í að kynna bankann og traustan rekstur hans fyrir núverandi hluthöfum og öðrum áhugasömum aðilum,“ segir Jón Guðni.