Hagnaður af rekstri Ís­lands­banka á þriðja árs­fjórðungi nam 7,3 milljörðum króna og var arð­semi eigin fjár 13,2% á árs­grund­velli.

Mun það vera vel yfir spám grein­enda en meðal­tal sjö greininga á­ætlaði arð­semi bankans um 10,8% á þriðja árs­fjóðungi.

Hreinar vaxta­tekjur námu 11,8 milljörðum króna á þriðja árs­fjórðungi 2024 og lækkuðu um 69 milljónir króna frá sama tíma­bili í fyrra. Vaxta­munur var 2,9%, sá sami og á þriðja árs­fjórðungi 2023.

Hreinar þóknana­tekjur jukust um 4,9% saman­borið við þriðja árs­fjórðung 2023 og námu sam­tals 3,6 milljörðum króna á fjórðungnum. Hreinar fjár­magns­tekjur námu 228 milljónum króna á þriðja árs­fjórðungi 2024, saman­borið við fjár­magns­gjöld að fjár­hæð 193 milljónir króna á tíma­bilinu í fyrra.

Kostnaðar­hlut­fall bankans var 41,4% á fjórðungnum sem er hækkun úr 39,0% á þriðja fjórðungi 2023.

„Rekstur Ís­lands­banka á þriðja árs­fjórðungi gekk vel og nam hagnaður 7,3 milljörðum króna og var arð­semi eigin fjár 13,2% á fjórðungnum, sem er yfir okkar fjár­hags­mark­miðum. Arð­semi eigin­fjár á fyrstu níu mánuðum ársins var 10,9%, sem er einnig yfir fjár­hags­mark­miðum. Tekjur jukust um tæp 4% saman­borið við sama árs­fjórðung í fyrra og kostnaðar­hlut­fall var 41,4% á þriðja árs­fjórðungi, og 44,2% fyrir fyrstu níu mánuði ársins, en mark­mið bankans er að það hlut­fall sé undir 45%. Unnið hefur verið að straum­línu­lögun í rekstri með hag­ræðingu að leiðar­ljósi,“ segir Jón Guðni Ómars­son banka­stjóri í upp­gjörinu.

Eigið fé Ís­lands­banka nam 223,4 milljörðum króna í lok árs­fjórðungsins, saman­borið við 224,7 milljarða króna í lok árs 2023.

Eigin­fjár­hlut­fall var 23,4% saman­borið við 25,3% í árs­lok 2023.

„Eigna­g­æði eru á­fram góð og hefur lang­varandi hátt vaxta­stig ekki haft teljandi á­hrif á lána­bók bankans, þó að­eins beri á auknum van­skilum á ó­tryggðum lánum, en heildar­fjár­hæð ó­tryggðra lána bankans er lítil í sam­hengi við heildar­um­fang út­lána. Fregnir af þverrandi verð­bólgu á haust­mánuðum og vaxta­lækkunar­á­kvörðun Seðla­bankans í byrjun októ­ber­mánaðar voru því góðar fréttir og gangi spár greiningar­aðila eftir mun verð­bólga halda á­fram að hjaðna á komandi mánuðum, sem ætti að skapa rými til frekari vaxta­lækkana Seðla­bankans,“ segir Jón Guðni.

Út­lán til við­skipta­vina Ís­lands­banka drógust saman um 2,5 milljarða króna á fjórðungnum, eða um 0,2% frá öðrum árs­fjórðungi, og voru 1.274 milljarðar króna í lok þriðja árs­fjórðungs.

Inn­lán frá við­skipta­vinum jukust á sama tíma um 10,9 milljarða sem er um 1,2% milli fjórðunga. Inn­lán frá við­skipta­vinum bankans námu 927 milljörðum króna í lok fjórðungsins.

„Við leggjum mikla á­herslu á að efla fjár­hags­lega heilsu við­skipta­vina okkar og nýtum til þess marg­vís­leg verk­færi. Að undan­förnu höfum við verið í sam­skiptum við við­skipta­vini sem eru með lán þar sem komið er að vaxta­endur­skoðun og verið við­skipta­vinum innan handar í krefjandi vaxta­um­hverfi. Þá mun bankinn á­fram leggja mikla á­herslu á fræðslu um fjár­mál til að tryggja að við­skipta­vinir okkar séu vel upp­lýstir um þá kosti sem í boði eru,“ segir Jón Guðni.

Á pari á fyrstu níu mánuðum ársins

Hagnaður Ís­lands­banka á fyrstu níu mánuðum ársins nam 18 milljörðum króna sem er á pari við hagnaðinn á sama tíma­bili í fyrra sem var 18,4 milljarðar.

Hreinar vaxta­tekjur á fyrstu níu mánuðum ársins námu 36,4 milljörðum króna, sem er sam­dráttur um 1,3% á milli ára.

Hreinar þóknana­tekjur drógust saman um 1,7% á milli ára og námu 10,3 milljörðum króna á fyrstu níu mánuðum ársins, saman­borið við 10,5 milljarða króna á sama tíma­bili árið 2023.

Kostnaðar­hlut­fall bankans, leið­rétt fyrir stjórn­valds­sektum, hækkaði úr 41,3% á fyrstu níu mánuðum ársins 2023 í 44,2% á fyrstu níu mánuðum ársins 2024.