Thorpesca S.A.S., nýstofnað argentínskt dótturfélag Iceland Seafood Ibérica, hefur undirritað kaupsamning við Food Arts S.A. um kaup á tveimur frystitogurum, Entrena Uno og Entrenda Dos, ásamt tilheyrandi veiðileyfum og sögulegum veiðiréttindum.

Heildarkaupverð nemur 5,8 milljónum Bandaríkjadala, eða sem nemur ríflega 700 milljónum króna, að því er kemur fram í tilkynningu Iceland Seafood International (ISI) til Kauphallarinnar.

Kaupin eru sögð hluti af stefnumótunarverkefnum ISI sem samþykkt voru í fyrra, þar sem áhersla er lögð á markvissar fjárfestingar í Argentínu til að styrkja stöðu samstæðunnar og núverandi starfsemi á svæðinu.

„Kaupin marka mikilvægt skref í að efla rekstrargetu Iceland Seafood Ibérica, samþættingu í aðfangakeðju og samkeppnisstöðu félagsins á alþjóðlegum rækjumarkaði.“

ISI segir kaupin á togurunum tveimur styðja við langtímamarkmið Iceland Seafood Ibérica, einkum með því að styrkja starfsemi félagsins í Argentínu og auka breidd í framboði á argentínskri rækju. Með þessum fjárfestingum nýti félagið reynslu sína af landfrystri villtri rækju og auki aðgang að sjófrystri rækju, hágæðavöru með hærra markaðsvirði.

Iceland Seafood Ibérica starfar nú þegar í Argentínu í gegnum dótturfélagið Achernar, sem var stofnað árið 2012 og er sjávarafurðafyrirtæki með áherslu á vinnslu og afurðasölu.

„Eftir kaup Iceland Seafood Ibérica á félaginu árið 2017 hefur það verið stórlega eflt og nútímavætt, sérstaklega vinnslustöðin í Puerto Madryn. Achernar er þekkt fyrir framleiðslu á villtri rækju, sem nýtur mikillar eftirspurnar vegna lits, áferðar og bragðs. Rækjan er veidd í Suður-Atlantshafi og Achernar er eitt fárra fyrirtækja með MSC-vottun (Marine Stewardship Council) fyrir sjálfbærar veiðar á rækju veiddri á Rawson veiðitímabilinu.“