Þegar fjallað er um rekstur banka snýst umræðan oft á tíðum um hagnað bankanna í krónum talið. Eðlilega veltir fólk því fyrir sér, enda um stórar fjárhæðir að ræða.
Þannig högnuðust stóru viðskiptabankarnir þrír, Arion banki, Íslandsbanki og Landsbankinn, samtals um 87,9 milljarða króna á síðasta ári.
Mikilvægt er að setja afkomu bankanna í samhengi við það eigið fé sem bundið er í rekstri þeirra lögum samkvæmt. Eigið fé Landsbankans nam 325 milljörðum króna um síðustu áramót, Íslandsbanka 227 milljörðum króna og Arion banka 207 milljörðum.
Eigið fé bankanna þriggja var því 759 milljarðar króna í lok árs, þar af nam hlutur ríkis og lífeyrissjóða 601 milljarði króna, sem nemur 79,2% hlutdeild í eigin fé.
Einn mikilvægasti mælikvarðinn á árangur bankanna er arðsemi eigin fjár, þ.e. hlutfall hagnaðar af eigin fé.
Stjórnir bankanna setja fram arðsemiskröfu og í dag er sú krafa gerð að Landsbankinn og Íslandsbanki skili 10% arðsemi, sem gerir 5,2% raunarðsemi miðað við verðbólguna í lok árs 2024. Arion banki er með 13% arðsemiskröfu í kjölfar ákvörðunar stjórnar bankans í lok árs 2021 að hækka hana úr 10%.
Undanfarin fimm ár hefur Arion banki skilað mestri arðsemi. Í fyrra nam arðsemi eigin fjár bankans 13,2%, en árið áður var hún 13,6%. Til samanburðar skilaði Íslandsbanki 10,9% arðsemi í fyrra og 11,3% arðsemi árið áður. Arðsemi eigin fjár Landsbankans var þá 12,1% í fyrra samanborið við 11,6% árið áður.
Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu sem kom út í morgun. Áskrifendur geta lesið fréttina í heild hér.