Arion banki hefur gert sátt við Samkeppniseftirlitið, þar sem bankinn viðurkennir að hafa brotið gegn banni við uppgreiðslugjöldum á lánum til lítilla fyrirtækja. Greiðir bankinn 80 milljónir króna í sekt, að því er kemur fram í ákvörðun eftirlitsins.
Í ákvörðun eftirlitsins kemur fram að ríkur samstarfsvilji Arion banka hafi haft verulega þýðingu við mat á fjárhæð sekta. Samstarfsviljinn hafi stytt rannsókn og málsmeðferð eftirlitsins.
„Jafnframt er litið til þess að þegar Samkeppniseftirlitið hóf athugun á háttseminni, greip bankinn fljótt til aðgerða svo áhrif hennar yrðu lágmörkuð.“
Forsaga málsins er að á árinu 2017 gerði Arion banki sátt við SKE þar sem bankinn skuldbatt sig meðal annars til að grípa til ýmissa aðgerða og hlíta skilyrðum sem miðuðu meðal annars að því að draga úr kostnaði sem viðskiptavinir verða fyrir þegar skipt er um veitanda fjármálaþjónustu. Í 2. grein sáttarinnar var lagt bann við uppgreiðslugjöldum á lánum til einstaklinga og lítilla fyrirtækja sem bera breytilega vexti.
Bankinn farið yfir alla lánaferla
Niðurstaða rannsóknar SKE er að Arion banki viðurkennir að hafa brotið gegn fyrrgreindu banni í tilteknum afmörkuðum tilvikum. Bankinn hafði í níu lánasamningum sem bera breytilega vexti kveðið á um uppgreiðslugjald eða ígildi þess. Þá innheimti bankinn uppgreiðslugjald í einu af þessum tilvikum, en í tilkynningu frá bankanum segir að gjaldið hafi nú þegar verið endurgreitt.
Þá segir í tilkynningu frá Arion banka að bankinn hafi farið yfir alla lánaferla sína og m.a. uppfært skjalagerðarferla, komið á sjálfvirkri vöktun vegna skráningar í útlánakerfi bankans og aukið fræðslu fyrir starfsfólk.