Arion banki hefur gengið frá samkomulagi um kaup á öllu hlutafé Arngrimsson Advisors Limited við hluthafa félagsins. Greint er frá þessu í fréttatilkynningu frá Arion banka.
Arngrimsson Advisors hefur sinnt eignastýringarráðgjöf með áherslu á erlenda fagfjárfestasjóði og sérhæfðar fjárfestingar frá árinu 2013. Markmiðið með kaupunum sé að fjölga valkostum viðskiptavina bankans – fagfjárfesta og einstaklinga – þegar kemur að fjárfestingum í erlendum sjóðum, sérstaklega á sviði sérhæfðra fjárfestinga.
Arion banki hefur gengið frá samkomulagi um kaup á öllu hlutafé Arngrimsson Advisors Limited við hluthafa félagsins. Greint er frá þessu í fréttatilkynningu frá Arion banka.
Arngrimsson Advisors hefur sinnt eignastýringarráðgjöf með áherslu á erlenda fagfjárfestasjóði og sérhæfðar fjárfestingar frá árinu 2013. Markmiðið með kaupunum sé að fjölga valkostum viðskiptavina bankans – fagfjárfesta og einstaklinga – þegar kemur að fjárfestingum í erlendum sjóðum, sérstaklega á sviði sérhæfðra fjárfestinga.
Gangi kaupin eftir munu eignir í stýringu hjá Arion aukast um rúma 170 milljarða króna. Samningur Arion banka og hluthafa Arngrimsson Advisors Limited er óskuldbinandi en á næstu mánuðum verður gengið frá endanlegum kaupsamningi að fengnum niðurstöðum áreiðanleikakannana og samþykki eftirlitsaðila. Í fréttatilkynningu segir að kaupverð sé trúnaðarmál.
Starfsfólk Arngrimsson Advisors, m.a. þeir Sigurður Arngrímsson, stofnandi og stjórnarformaður, og Bjarni Brynjólfsson, forstjóri, munu verða Arion banka til ráðgjafar um óákveðinn tíma.
Arngrimsson Advisors Limited var stofnað í London í janúar 2013 af Sigurði Arngrímssyni sem starfaði áður hjá Morgan Stanley í 16 ár og þar áður hjá Kaupþingi. Bjarni Brynjólfsson, forstjóri félagsins, gekk til liðs við fyrirtækið síðar á árinu 2013 eftir að hafa byggt upp viðamikla reynslu á sviði fjárfestinga fyrir lífeyrissjóði, tryggingafélög og fjárfestingarfélög.
Benedikt Gíslason, bankastjóri Arion banka:
„Það er ánægjulegt að auka enn við þjónustuframboð bankans með því að fá til liðs við okkur afar reynslumikla aðila á sviði eignastýringar og fjárfestinga í erlendum sjóðum. Við getum nú boðið viðskiptavinum Arion enn fjölbreyttari fjárfestingarkosti og er um að ræða fjölbreytt úrval erlenda sjóða sem eiga langa og góða sögu hér á landi.“
Sigurður Arngrímsson, stjórnarformaður Arngrimsson Advisors:
„Það er okkur mikill heiður að taka þátt í vegferð Arion á þessu sviði og fá tækifæri til að miðla áfram áratuga reynslu og þekkingu á þessum markaði. Hjá Arngrimsson Advisors hefur byggst upp þekking á sérhæfðum erlendum fjárfestingum sem og þjónustu við fagfjárfesta allt frá upphafi þátttöku þeirra á erlendum markaði.“