Arion banki tilkynnti í morgun um 0,75 prósentu hækkun óverðtryggðra íbúðalána eftir stýrivaxtahækkun Seðlabankans þann 24. ágúst síðastliðinn. Breytingin tekur gildi 5. október.
Arion tilkynnti á föstudaginn að vaxtahækkun óverðtryggðra neytendalána sem átti að taka gildi 29. júlí síðastliðinn mun ekki taka gildi fyrr en 25. september þar sem bankanum misfórst að tilkynna viðskiptavinum um breytinguna með beinum hætti. Bankinn frestaði því vaxtahækkuninni og mun endurgreiða ofgreidda vexti.
Óverðtryggðir breytilegir íbúðalánavextir Arion munu því hækka um 1,0 prósentustig þann 25. og verða 6,59%. Hækkunin sem tilkynnt var í dag um 0,75 prósentustig tekur gildi 5. október og verða vextir þá 7,34%.
Þá munu verðtryggðir breytilegir íbúðalánavextir hjá Arion hækka um 0,30 prósentustig og verða 2,19%. Verðtryggðir fastir íbúðalánavextir til fimm ára hækka um 0,30 prósentustig og verða 2,19%.
Almennir óverðtryggðir kjörvextir hækka um 0,75 prósentustig og verða 7,6% þann 25. september og 8,35% þann 5. október. Almennir verðtryggðir kjörvextir hækka um 0,30 prósentustig og verða 3,70%.
Fram kemur að breytilegir óverðtryggðir vextir sparnaðarreikninga hækki um allt að 0,75 prósentustig og vextir veltureikninga hækka um 0,10 prósentustig.