Stjórn Arion banka leggur til að greiddur verði út arður að fjárhæð 16 milljarðar króna vegna ársins 2024. Þetta kemur fram í nýbirtu ársuppgjöri Arion.
Hin fyrirhugaða arðgreiðsla samsvarar 11,5 krónum á hlut en til samanburðar greiddi bankinn út 13,1 milljarða í arð í fyrra sem samsvaraði 9,0 krónum á hlut.
Bankinn hagnaðist um 26,1 milljarð króna í fyrra, samanborið við 25,7 milljarða hagnað árið áður. Arðsemi eiginfjár var 13,2%, samanborið við 13,6% á árinu 2023. Arðsemi bankans á fjórða ársfjórðungi var 16,3%.
„Afkoman á árinu var í takt við markmið okkar og skilaði 13,2% arðsemi eiginfjár,“ segir Benedikt Gíslason, bankastjóri Arion.
„Tekjur af kjarnastarfsemi bankans voru í takt við væntingar en sú staðreynd að hluta- og skuldabréfamarkaðir tóku við sér á síðari hluta ársins hafði jákvæð áhrif á fjármunatekjur.“
Rekstrartekjur Arion af kjarnastarfsemi, sem skilgreind hefur verið sem hreinar vaxtatekjur, hreinar þóknanatekjur og hreinar tekjur af tryggingum (án rekstrarkostnaðar), jukust um 4,6% milli ára, aðallega vegna afkomu af vátryggingasamningum.
Fram kemur að starfsemi Varðar hafi styrkst á milli ára en rekstrarniðurstaða tryggingafélagsins nam 3,7 milljörðum króna í fyrra.
Hreinar vaxtatekjur jukust um 3,6% frá fyrra ári og námu 46,3 milljörðum. Vaxtamunur Arion hélst óbreyttur milli ára eða 3,1%.
Þóknanatengdar tekjur drógust hins vegar saman um 6,3% milli ára sem bankinn rekur að hluta til lokunar á útibúi bankans í Leifsstöð og breyttri flokkun tekna af kortatryggingum.
Hreinar fjármunatekjur námu 2,8 milljörðum króna á árinu, einkum vegna sterkrar afkomu af verðbréfasafni Varðar, samanborið við 1,4 milljarða árið áður.
Í skýrslu stjórnar segir að samsetning lánasafns bankans hafi breyst á þann veg að hlutfall verðtryggðra útlána jókst verulega sem eykur sveiflur í hreinum vaxtatekjum.
Þá sé raunvaxtastig áfram mjög hátt og samkeppni um innlán mjög mikil, sem eykur kostnað við fjármögnun bankans umtalsvert.