Arion banki hefur fest kaup á þriðjungshlut í nýsköpunarfyrirtækinu Frágangi og gengur þar til liðs við stofnendur félagsins. Í tilkynningu er fjárfestingin sögð liður í áherslu bankans á að styðja við nýsköpunarfyrirtæki sem nýta rafrænar lausnir til að einfalda viðskipti, fjármál og tryggingar.

Frágangur er nýsköpunarfyrirtæki sem var stofnað árið 2020 en markmið þess er að gera ökutækjaviðskipti alfarið rafræn.

„Rafræn lausn Frágangs gerir öllum þeim sem kjósa að sjá sjálfir um kaup og/eða sölu á ökutæki kleift að eiga örugg, einföld og hröð viðskipti. Lausnin felur í sér alla skjalagerð sem tengist viðskiptunum, þar á meðal kaupsamninga, eigendaskipti, fjármögnun og tryggingar.“

Benedikt Gíslason, bankastjóri Arion banka:

„Við hjá Arion banka höfum brennandi áhuga á að einfalda fólki lífið varðandi fjármál og viðskipti. Þess vegna höfum við fjárfest mikið í Arion appinu en það hefur verið valið besta bankaappið á Íslandi sex ár í röð af viðskiptavinum bankanna í könnun MMR. Við höfum einnig fjárfest í spennandi fjártæknifélögum sem deila þessum áhuga; fyrirtækjum eins og Leiguskjóli, sem er orðið miðpunktur leigumarkaðarins hér á landi, og nú Frágangi sem einfaldar öllum þeim lífið sem vilja sjá sjálfir um ökutækjaviðskipti. Við sjáum að Frágangur er nú þegar orðinn mikilvægur innviður fyrir bílaviðskipti og hlökkum til að vinna með félaginu í áframhaldandi þróun.“

Helgi Pjetur, framkvæmdastjóri Frágangs:

„Ég er mjög ánægður með innkomu Arion banka í hluthafahóp Frágangs. Þessi fjárfesting mun gera okkur kleift að þróa lausnina okkar enn hraðar og hefja frekari markaðssókn hér á Íslandi. Við munum einnig njóta góðs af mikilli reynslu starfsfólks Arion þegar kemur að ökutækjafjármögnun og öðrum ferlum tengdum ökutækjaviðskiptum almennt.