Arion banki leysti til sín tæplega 4,4% eignarhlut Þórðar Magnússonar í Eyri Invest í tengslum við veðkall sem var gert á Árna Odd Þórðarson, son Þórðar, í lok október. Arion banki á í dag um 9,3% hlut í Eyri, sem er stærsti hluthafi Marels með um fjórðungshlut. Innherji greinir frá í fréttaskýringu um framvindu mála.

Á þriðjudagskvöld var tilkynnt um að Arion banki hefði leyst til sín 44.000.000 hluti í Eyri Invest hf., eða um 4,87% eignarhlut í fjárfestingarfélaginu, sem stóðu til tryggingar láni Árna Odds Þórðarsonar hjá bankanum. Eftir viðskiptin á Árni Oddur Þórðarson beint og óbeint 13,03% hlut í Eyri Invest hf.

Eignarhlutur Þórðar í Eyri hefur sömuleiðis minnkað úr 20,7% í 16,2% við veðkallið. Þórður, sem lét af störfum sem stjórnarformaður Eyris í vor, er eftir sem áður stærsti hluthafi fjárfestingarfélagsins. Feðgarnir eiga nú samtals um 29% hlut í Eyri.