Arion banki og Íslandsbanki tilkynntu báðir um hækkun vaxta í kjölfar hálfrar prósentu stýrivaxtahækkunar Seðlabankans í síðustu viku. Breytingarnar taka gildi hjá Íslandsbanka á mánudaginn og hjá Arion á þriðjudaginn.

Arion hækkar óverðtryggða breytilega íbúðalánavexti um 0,50 prósentustig og verða þeir 8,34%. Óverðtryggðir fastir 3 ára íbúðalánavextir Arion verða þó óbreyttir í 8,5%. Íslandsbanki hækkar vexti á óverðtryggðum húsnæðislánum um 0,50 prósentustig, upp í 8,25%.

Á innlánahliðinni er sérstaklega tekið fram í tilkynningu Íslandsbanka að nýir vextir á húsnæðissparnaðarreikningi, 6,95%, verði þeir hæstu á markaðnum, en sá titill mun vara skammt því daginn eftir þegar breytingar Arion taka gildi hækka sömu vextir þar úr 6,5 í 7%.

Breytilegir óverðtryggðir vextir sparnaðarreikninga Arion hækka um allt að 0,70 prósentustig og vextir veltureikninga bankans um 0,10 prósentustig.

Vextir á óverðtryggðum innlánsreikningum Íslandsbanka hækka um 0,50 prósentustig.

Bankarnir tveir hækka báðir yfirdráttavexti, almenna óverðtryggða kjörvexti og kjörvexti bílalána um 0,5 prósentur.