Stjórnir Arion banka og Íslandsbanka hafa sent uppfært erindi til stjórnar Kviku banka þar sem ítrekaðar eru óskir um sameiningu bankanna. Þetta kemur fram í tilkynningu stjórnar Arion banka, stjórnar Íslandsbanka og stjórnar Kviku banka til Kauphallarinnar.
Í tilkynningu Arion banka segir að stjórn bankans hafi ákveðið að senda erindi til stjórnar Kviku eftir fund fulltrúa Arion og Kviku í morgun. Viðskiptablaðið greindi frá umræddum fundi fyrr í dag.
Í tilkynningu Kviku banka segir að eftir lokun markaða í dag hafi stjórnarformanni og forstjóra Kviku banka borist uppfærð erindi frá Arion banka og Íslandsbanka þar sem félögin ítrekuðu óskir um samrunaviðræður.
Stjórn Kviku banka muni taka bæði erindin til umræðu og ákveða næstu skref af hálfu bankans. Nánar verði upplýst um framvindu þegar ástæða sé til og í samræmi við lögbundna upplýsingaskyldu bankans.
Líkt og fjallað hefur verið um óskuðu stjórnir Arion banka og Íslandsbanka eftir samrunaviðræðum við Kviku banka 27. maí sl.
Stjórn Kviku svaraði þeirri beiðni rúmum tveimur vikum síðar með því hafna samrunaviðræðum þar sem erindi beggja banka endurspeglaði ekki að mati stjórnar Kviku virði bankans. Stjórn Kviku tók þó fram að hún væri til í að endurmeta ákvörðun sína varðandi samrunaviðræður.