Félag löggiltra endurskoðenda (FLE) hefur sent formlega beiðni til ársreikningaskrár ríkisskattstjóra um að endurupptaka ákvörðun sína um skráningu samstæðureiknings Isavia ohf. fyrir rekstrarárið 2023.
Byggir beiðnin á ítarlegu lögfræðiáliti frá Jónatansson & Co Legal, þar sem fullyrt er að áritun ríkisendurskoðanda á samstæðureikninginn sé skýlaust brot á lögum nr. 3/2006 um ársreikninga og lögum nr. 94/2019 um endurskoðendur.
Í lögfræðiálitinu er sérstaklega bent á að ríkisendurskoðandi sé ekki löggiltur endurskoðandi og hafi því enga lagalega heimild til að árita ársreikninga endurskoðunarskyldra félaga á borð við Isavia ohf.
Samkvæmt lögunum er slík áritun einungis á færi löggiltra endurskoðenda, en ríkisendurskoðandi fellur ekki undir þá skilgreiningu. Niðurstaða álitsins er því sú að áritun ríkisendurskoðanda á ársreikninginn sé markleysa að lögum (nullitet) og að skráning samstæðureikningsins í ársreikningaskrá með þessari áritun sé ólögmæt.
Ríkisendurskoðandi hóf á síðasta ári að árita ársreikninga fyrirtækja í meirihlutaeigu ríkisins, þrátt fyrir að slíkar áritanir séu háðar ströngum skilyrðum um löggildingu endurskoðenda. Það er mat FLE að þessi framkvæmd feli í sér alvarlegt frávik frá lagaskyldum og brjóti gegn grundvallarreglum um lögbundna endurskoðun.
Líkt og Viðskiptablaðið greindi frá var í ársreikningum Íslandspósts ohf. og Isavia ohf. fyrir árið 2023 ekki að finna áritun óháðs endurskoðanda heldur aðeins áritun ríkisendurskoðanda.
Um var að ræða breytingu frá fyrra ári þegar ársreikningar ríkisfyrirtækjanna voru áritaðir bæði af óháðum endurskoðanda og ríkisendurskoðanda.
FLE hefur nú krafist þess að ársreikningaskrá hafni skráningu samstæðureikningsins með þessari ólögmætu áritun.
„Verði ekki orðið við þeim tilmælum áskilur FLE sér rétt til þess að leita annarra leiða til þess að knýja fram löglega málsmeðferð af hálfu ársreikningaskrár vegna samstæðureiknings Isavia ohf., þ.m.t. að leggja fram stjórnsýslukæru til Menningar- og viðskiptaráðuneytisins með kröfu um að téðri ákvörðun ársreikningaskrár um skráningu samstæðureiknings Isavia ohf. verði hrundið,“ segir í tilkynningu FLE.
Samkvæmt áliti Jónatansson & Co Legal stenst ekki sú skýring að lög nr. 46/2016 um ríkisendurskoðanda og endurskoðun ríkisreikninga heimili ríkisendurskoðanda að fara fram hjá ákvæðum laga um ársreikninga og endurskoðendur.
Þvert á móti er áritun hans ekki í samræmi við gildandi lög og getur leitt til þess að samstæðureikningnum teljist ekki hafa verið skilað í lögbundnu formi.
Ef fallist verður á kröfur FLE gæti það haft víðtæk áhrif á það hvernig ársreikningar annarra fyrirtækja í eigu ríkisins verða unnir og skráðir í framtíðinni.