Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra undirritaði í gær þjónustusamning við Samtökin ´78 sem felur í sér að árlegt framlag til Samtakanna ´78, hagsmunafélags hinsegin fólks á Íslandi, er aukið um 25 milljónir króna, líkt og samþykkt var á Alþingi við afgreiðslu fjárlaga. Árlegt framlag ríkissjóðs til samtakanna fer því úr 15 í 40 milljónir.
Samtökin fá auk þess einskiptis framlag að fjárhæð 15 milljónir króna sem Alþingi samþykkti að veita samtökunum til að vinna gegn bakslagi gegn hinsegin fólki í samfélaginu, að því er kemur fram í tilkynningu forsætisráðuneytisins.
Til að setja fjárhæðirnar í samhengi þá námu rekstrargjöld samtakanna 84,8 milljónum króna árið 2021 og 66,4 milljónum árið 2020, samkvæmt síðasta ársreikningi. Rekstrartekjur árið 2021 námu 75,2 milljónum en þar af voru opinber framlög 47,3 milljónir.
Samtökin voru rekin með 9,6 milljóna halla árið 2021 og 9,4 milljóna halla árið 2020. Eignir Samtakanna ´78 voru bókfærðar á 30,5 milljónir í árslok 2021 og eigið fé var um 14,1 milljón.
„Núverandi ríkisstjórn hefur stóraukið stuðning sinn við Samtökin ´78, meðal annars til að berjast gegn hatursorðræðu og fordómum sem hinsegin fólk verður því miður í auknum mæli fyrir. Á árabilinu 2017-2022 sjöfölduðust heildarfjárframlög ríkisins til Samtakanna vegna skýrrar forgangsröðunar í þágu réttindabaráttu hinsegin fólks,“ segir Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra.