Skráning breska hálfleiðarafyrirtækisins Arm á Nasdaq fór einstaklega vel af stað í gær og rauk gengið upp á fyrsta viðskiptadegi.
Tíföld umframeftirspurn var eftir bréfum fyrirtækisins og var útboðsgengið 51 Bandaríkjadalur. Gengið hækkaði um tæp 25% á fyrsta viðskiptadegi og lokaði í 64 dölum.
Stór frumútboð hafa verið af skornum skammti síðastliðna mánuði og er vonast eftir því að vel heppnað útboð Arm hvetji fleiri fyrirtæki til að fara á markað.
Samkvæmt útboðsgenginu var markaðsvirði Arm 54 milljarðar dalir en stendur nú í 68 milljörðum. Markaðsvirði Arm er því um 9,2 þúsund milljarðar íslenskra króna.
Fjárfestingasjóðurinn Softbank átti allt hlutafé fyrirtækisins en sjóðurinn hélt eftir 90% eignarhlut.
Gengi Softbank hækkaði um rúm 5 % í aðdraganda útboðsins en sjóðurinn hefur átt gott ár markaði og hefur gengið hækkað um 19% á árinu.
Arm hefur lengi verið vonarstjarna breskra tæknifyrirtækja og sagði Rishi Sunak, forsætisráðherra Bretlands, í vikunni að það væri „spark í andlitið“ að Softbank hafi ákveðið að skrá fyrirtækið á Nasdaq fremur en í Kauphöllina í London.