Héraðsdómur Reykjavíkur hafnaði í dag beiðni Árna Odds Þórðarsonar, fyrrum forstjóra Marels og eins stærsta hluthafa Eyris Invest, um heimild til framlengingar á greiðslustöðvun. Innherji greinir frá í ítarlegri umfjöllun.

Fyrir rúmum mánuði var tilkynnt um að Árni Oddur væri hættur sem forstjóri Marels eftir tíu ára starf vegna ágreinings við lánveitanda sinn Arion banka. Arion leysti til sín yfir 4,87% hlut Árna Odds í Eyri Invest sem á 24,67% hlut í Marel. Degi síðar sendi Árni Oddur frá sér yfirlýsingu þar sem hann upplýsti um að hann hefði fengið greiðslustöðvun samþykkta vegna málsins.

Í umfjöllun Innherja segir að úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur komi í kjölfar munnlegs málflutnings síðasta föstudag þar sem Steinunn Guðbjartsdóttir, aðstoðarmaður Árna Odds í greiðslustöðvuninni, og Ólafur Örn Svansson, lögmaður fyrir hönd Landsbankans, tókust á um hvort rétt væri að framlengja úrræðið.

Landsbankinn er kröfuhafi á hendur Árna Odds og er m.a. lánveitandi Árna Odds Þórðarsonar ehf., sem á 1,3% hlut í Eyri Invest. Í frétt Innherja segir að Landsbankinn hafi einnig gert veðkall í bréf Árna Odds – sem hann hélt á í gegnum framangreint félag – en aðhafðist ekki áður en Árni Oddur fékk samþykkta greiðslustöðvun.