Mjólkurvinnslan Arna á Bolungarvík, sem sérhæfir sig í framleiðslu á mjólkurvörum án laktósa, hagnaðist um tæplega 36 milljónir króna á síðasta ári samanborið við 42 milljóna tap árið 2022.

Mjólkurvinnslan Arna á Bolungarvík, sem sérhæfir sig í framleiðslu á mjólkurvörum án laktósa, hagnaðist um tæplega 36 milljónir króna á síðasta ári samanborið við 42 milljóna tap árið 2022.

Rekstrartekjur félagsins jukust um 20% og námu ríflega 1,9 milljörðum króna. Rekstrargjöld Örnu voru hátt í 1,8 milljarðar. Rekstrarafkoma (EBIT) félagsins fór úr því að vera neikvæð um 56 milljónir árið 2022 í að vera jákvæð um 128 milljónir í fyrra.

„Stjórn félagsins áætlar að rekstur félagsins á árinu 2024 verði með svipuðum hætti og á árinu 2023,“ segir í skýrslu stjórnar í nýbirtum ársreikningi.

Eignir mjólkurvinnslunnar voru bókfærðar á 847 milljónir í árslok 2023. Eigið fé var um 111 milljónir og skuldir 735 milljónir. Eiginfjárhlutfall félagsins fór úr 8,6% í 13,2% milli ára.

Jón von Tetzchner er aðaleigandi Örnu með 64% hlut. Framkvæmdastjórinn Hálfdan Óskarsson, sem stofnaði Örnu árið 2013, er næst stærsti hluthafinn með 16% hlut.