Arnar Már Arnarsson hefur látið af störfum sem aðstoðarforstjóri og framkvæmdastjóri flugrekstrarsviðs Play. Þetta kemur fram í tilkynningu Play um breytingar á framkvæmdastjórn og stjórnendum flugfélagsins.

Arnar Már er einn af stofnendum Play og var forstjóri flugfélagsins á árunum 2019-2021, áður en félagið hóf sig til flugs, og tók í kjölfarið við stöðu framkvæmdastjóra flugrekstrarsviðs. Í mars 2022 lét hann af störfum sem framkvæmdastjóri flugrekstrarsviðs en tók aftur við stöðunni rúmu ári síðar. Í maí síðastliðnum var tilkynnt um að hann hefði verið gerður að aðstoðarforstjóra.

Georg Haraldsson framkvæmdastjóri upplýsingatæknisviðs, lætur einnig af störfum en verður félaginu til ráðgjafar næstu mánuði. Georg hefur gengt stöðunni síðustu ‏þrjú árin.

Andri Geir í framkvæmdastjórnina

Andri Geir Eyjólfsson hefur verið ráðinn framkvæmdastjóri flugrekstrarsviðs (COO) hjá Play og tekur við starfinu af Arnari Má.

Andri Geir hefur starfað hjá Play frá stofnun fyrirtækisins árið 2019 sem tæknistjóri en síðastliðið ár hefur hann gegnt stöðu aðstoðarframkvæmdastjóra flugrekstrarsviðs. Andri Geir starfaði áður hjá Wow air sem aðstoðartæknistjóri. Hann hefur einnig gegnt öðrum störfum hjá Air Atlanta, Icelandair og WOW air. Andri lærði flugvirkjun hjá TEC Aviation í Danmörku.

Andri Geir Eyjólfsson hefur tekið við stöðu framkvæmdastjóra flugrekstrarsviðs Play
© Aðsend mynd (AÐSEND)

Hlutverk Sigurðar Arnar víkkað út

Sigurður Örn Ágústsson, fyrrum forstjóri og stjórnarformaður Bláfugls, var í apríl ráðinn framkvæmdastjóri viðskiptaþróunar Play.

Hlutverk hans hefur verið víkkað út samhliða breytingum á stjórnendateymi Play og gegnir hann nú stöðu framkvæmdastjóri viðskiptaþróunar- og upplýsingatæknisviðs flugfélagsins.

Samhliða þessu hefur Ramunas Kurkutis verið ráðinn forstöðumaður upplýsingatæknisviðs og verður staðsettur á skrifstofu Play í Vilníus í Litháen. Ramunas er sagður vera með yfir tveggja áratuga reynslu af stjórnunarstörfum í upplýsingatækni hjá alþjóðlegum fyrirtækjum.

Ný skrifstofa forstjóra og tveir nýir sviðsstjórar

Fram kemur að Play hefur stofnað skrifstofa forstjóra. Tvö svið verða til innan hennar. Annars vegar lögfræði- og mannauðssvið og hins vegar samskipta- og markaðssvið.

Jóhann Pétur Harðarson verður sviðsstjóri lögfræði- og mannauðssvið Play. Hann hefur verið lögfræðingur félagsins frá árinu 2021. Jóhann Pétur er með cand. jur. gráðu í lögfræði frá Háskóla Íslands og MBA-gráðu frá NYU, Stern School of Business.

Nadine Guðrún Yaghi verður forstöðumaður samskipta- og markaðssviðs. Hún hefur starfað sem forstöðumaður samskipta- og þjónustu hjá Play frá árinu 2021. Þar áður starfaði hún sem frétta- og dagskrárgerðarkona til fjölda ára. Hún er með cand. jur. gráðu í lögfræði frá Háskóla Íslands.

Jóhann Pétur Harðarson og Nadine Guðrún Yaghi, nýir sviðsstjórar hjá Play.
© Aðsend mynd (AÐSEND)

Sex manna framkvæmdastjórn Play:

Framkvæmdastjórn Play verður í kjölfar breytinganna skipuð sex einstaklingum en áður voru þeir sjö. Eftirfarandi einstaklingar skipa framkvæmdastjórn flugfélagsins í dag:  

  • Einar Örn Ólafsson, forstjóri 
  • Ruta Dabašinskaitė-Vitkė, fjármálastjóri 
  • Andri Geir Eyjólfsson, framkvæmdastjóri flugrekstrarsvið 
  • Daníel Snæbjörnsson, framkvæmdastjóri leiðakerfis og áætlunarsviðs 
  • Sonja Arnórsdóttir, framkvæmdastjóri tekna- og þjónustu 
  • Sigurður Örn Ágústsson, framkvæmdastjóri viðskiptaþróunar- og upplýsingatækni 

„Ég vil þakka Arnari Má og Georgi fyrir þeirra framlag á undanförnum árum og óska þeim alls hins besta. Andri Geir býr yfir mikilvægri reynslu af flugrekstri Play og hefur verið algjör lykilmaður í félaginu frá stofnun. Flugrekstrarsviðið verður því í góðum höndum með Andra Geir í fararbroddi. Fram undan eru spennandi tímar hjá Play, þar sem nýtt úrvalsteymi stjórnenda mun leiða félagið áfram til enn frekari árangurs,“ segir Einar Örn Ólafsson, forstjóri Play.