Það er alveg rétt hjá honum, þetta rugl er náttúrulega bara búið. En nákvæmlega hvenær og hvernig er verra að segja,“ segir Arnar Sigurðsson, eigandi Santewines, spurður um mat forstjóra ÁTVR að vefverslanir einkaaðila með áfengi muni leiða af sér afnám einkaleyfis ríkisins á sölu áfengis.
Ívar J. Arndal, forstjóri ÁTVR, sagði í nýbirtri ársskýrslu ríkisfyrirtækisins að velja þurfi á milli áfengisstefnunnar sem hefur verið uppi hér á landi í áratugi eða gefa smásölu áfengis alfarið frjálsa – ekki verði bæði sleppt og haldið. Hann sagði einkareknar vefverslanir hafa starfað óáreittar „þrátt fyrir að flestir séu sammála um að fyrir þeim sé ekki heimild í lögum“ og hélt því fram að þær afhendi áfengi hverjum sem er, jafnvel þeim sem hafi ekki náð 20 ára aldri.
Sjá einnig: Leiði af sér afnám einkaleyfis ÁTVR
Arnar gefur lítið fyrir þessar ásakanir og bendir á að Santewines styðjist við rafræn skilríki til að tryggja að áfengislögum sé framfylgt.
„Hann heldur áfram að bera það upp að það sé meiri hætta á sölu til ungmenna hjá einkaaðilum. Veruleikinn er sá að við ábyrgjumst áfengiskaupaaldurinn með rafrænum skilríkjum á meðan hann gefur upp sjálfur að einn af hverjum fjórum ungmennum sem reyna að kaupa áfengi í Vínbúðinni sleppi í gegn. Það er bara samkvæmt hans eigin rannsóknum,“ segir Arnar í samtali við Viðskiptablaðið.
Hann spyr á móti hvort skynsamara sé að reka 52 verslanir á fjölförnum stöðum eða halda úti vefverslunum ef málið er hugsað út frá lýðheilsusjónarmiðum. „Hver er hugmyndafræðin á bak við það að ríkisstarfsmenn séu betur til þess fallnir að passa upp á þetta?“ spyr Arnar og bætir við að hann vilji ekki að börn og unglingar kaupi áfengi.
Ekki til augljósari mismunun
Með tilkomu erlendra vefverslana á borð við Santewines hafa margir, þar með talið Arnar, furðað sig á því að innlendum netverslunum sé ekki heimilt að selja til íslenskra neytenda. Forstjóri ÁTVR sagði umræðuna vera á villigötum. Engin mismunun væri til staðar heldur sé um að ræða ólík viðskipti þar sem einstaklingar mega flytja inn áfengi til eigin nota.
„Að innlendum netverslunum sé óheimilt að selja til íslenskra neytenda en erlendar netverslanir mega það - það verður nú ekki til augljósari mismunun. Ég held að við þurfum enga framhaldsskólamenntun til að sjá það,“ segir Arnar. „Þetta er náttúrulega bara samhengislaust bull.“
„Rockefeller þvaður“
Í ávarpi sínu eyddi forstjóri ÁTVR ófáum orðum í fjalla um sýn bandaríska viðskiptajöfursins John D. Rockefeller að einkarekstur, samkeppni og markaðsöflin væru of öflug verkfæri fyrir áfengissölu og vitnaði í formála bókarinnar Toward Liquor Control sem gefin var út árið 1933.
Arnar furðar sig á því að Ívar skuli bera fyrir sig aldargömlu „Rockefeller þvaðri“ til rökstuðnings á ríkiseinokun áfengis og segir tímana breytta, meðal annars vegna tilkomu internetsins.
Öfug stærðarhagkvæmni
Rekstrartekjur ÁTVR námu 45 milljörðum króna á síðasta ári og ársverk voru 342 talsins. Arnar segir að velta ÁTVR á hvern starfsmann hafi verið um einn þriðji borin saman við hlutfallið hjá Sante.
„Þetta er það sem við köllum öfuga stærðarhagkvæmni. Það er mjög merkilegt að einokunarverslunin sé ekki með betra hlutfall miðað við það forskot sem þeir hafa á markaðnum.“
Ívar varaði við því að ef einkaaðilum á Íslandi verði leyft að selja áfengi í gegnum netverslanir muni það hafa í för með sér tilheyrandi samkeppni og verðstríð. Arnar segir þau ummæli áhugaverð í ljósi þess að verðin hjá Sante séu þegar lægri. „Það er bara af því að tilkostnaðurinn er miklu lægri.“
Rekstrarkostnaður ÁTVR var um 4.635 milljónir króna á síðasta ári, þar af voru 379 milljónir bókfærðar undir liðnum stjórnunar- og skrifstofukostnaður. Arnar býsnast yfir þessari fjárhæð og veltir fyrir sér hvað þessir peningar hafi farið í, sérstaklega á tímum Covid.
Væri ÁTVR ekki til staðar, þá efast Arnar að nokkur maður myndi telja skynsamlegt að setja upp net af sérverslunum á Íslandi með þessum kostnaði og ber Vínbúðina saman við gömlu mjólkurbúðirnar sem voru hundrað talsins þegar mest lét.
„Þetta er svo mikil firra. Það er svo mikil geggjun að þessi umræða skuli yfir höfuð vera til staðar.“