Arnarlax á Bíldudal náði þeim áfanga í síðustu viku að hafa framleitt yfir 100.000 tonn af laxi frá stofnun fyrirtækisins árið 2010 en í tilkynningu segir að 100.000 tonn séu ígildi 500 milljón máltíða.

Árið 2016 var ársframleiðsla fyrirtækisins um 6.100 tonn og hafði framleiðslan hækkað í 17.800 tonnum árið 2023, sem jafngildir að meðaltali um 11.100 tonn á hverju ári.

„Þetta er mikilvægur og ánægjulegur áfangi í 15 ára vegferð fyrirtækisins. Þessi árangur er afrakstur mikillar vinnu starfsfólks okkar í öllum deildum fyrirtækisins. Hvert einasta tonn staðfestir framtíðarsýn og skuldbindingu okkar við samfélagið og umhverfið,“ segir Björn Hembre, forstjóri Arnarlax.

Meðalfjöldi starfsfólks hjá Arnarlaxi er 184 og um 70% þeirra búa í sameinuðu sveitarfélagi Tálknafjarðarhrepps og Vesturbyggðar.

„Laxeldi er mikilvæg atvinnugrein á Vestfjörðum og jafnframt ein af mikilvægustu atvinnugreinum Íslands og nam útflutningsverðmæti greinarinnar um 40 milljörðum króna árið 2023 eða 4,3% af vöruútflutningi þjóðarinnar og stefnir í um 5% árið 2024,“ bætir Björn við.