Lax­eldis­fyrir­tækið Arnar­lax verður skráð á First North hliðar­markað Kaup­hallar Ís­lands nú í haust. Fé­lagið hefur verið skráð í norsku kaup­höllina frá 2019 og verður því tví­skráð. Ó­líkt skráningum síðustu ára verður ekki haldið út­boð sam­hliða, enda ekki um frum­skráningu að ræða.

Arion banki verður ráðgjafi félagsins við skráninguna. Þetta kemur fram í tilkynningu til Kauphallarinnar nú í morgunsárið.

Björn Hem­bre, fram­kvæmda­stjóri Arnar­lax, segir þetta á­nægju­leg tíma­mót í sögu fé­lagsins og hlakkar til að bjóða nýja ís­lenska fjár­festa vel­komna í hlut­hafa­hópinn.

„Það er okkur mjög mikil­vægt að ís­lenskur al­menningur hafi tæki­færi til að taka þátt í okkar veg­ferð sem hlut­hafar, án þess að þurfa að standa í alls konar veseni og taka gengis­á­hættu,“ segir hann og vísar þar til skráningarinnar í norsku Kaup­höllina.

Þá muni skráningin hér einnig auð­velda líf­eyris­sjóðum að fjár­festa í fé­laginu, sem vissu­lega hafa meiri reynslu í er­lendum fjár­festingum, en eru á móti bundnir ýmsum skil­yrðum með sínar fjár­festingar, ekki síst há­marks­hlut­falli sem má vera er­lendis. Loks segir Björn ís­lenskt fjár­mála­líf einnig hafa sýnt fé­laginu þó­nokkurn á­huga ný­verið.

Fjallað er nánar um málið í Við­skipta­blaðinu sem kemur út í fyrra­málið.