Laxeldisfyrirtækið Arnarlax verður skráð á First North hliðarmarkað Kauphallar Íslands nú í haust. Félagið hefur verið skráð í norsku kauphöllina frá 2019 og verður því tvískráð. Ólíkt skráningum síðustu ára verður ekki haldið útboð samhliða, enda ekki um frumskráningu að ræða.
Arion banki verður ráðgjafi félagsins við skráninguna. Þetta kemur fram í tilkynningu til Kauphallarinnar nú í morgunsárið.
Björn Hembre, framkvæmdastjóri Arnarlax, segir þetta ánægjuleg tímamót í sögu félagsins og hlakkar til að bjóða nýja íslenska fjárfesta velkomna í hluthafahópinn.
„Það er okkur mjög mikilvægt að íslenskur almenningur hafi tækifæri til að taka þátt í okkar vegferð sem hluthafar, án þess að þurfa að standa í alls konar veseni og taka gengisáhættu,“ segir hann og vísar þar til skráningarinnar í norsku Kauphöllina.
Þá muni skráningin hér einnig auðvelda lífeyrissjóðum að fjárfesta í félaginu, sem vissulega hafa meiri reynslu í erlendum fjárfestingum, en eru á móti bundnir ýmsum skilyrðum með sínar fjárfestingar, ekki síst hámarkshlutfalli sem má vera erlendis. Loks segir Björn íslenskt fjármálalíf einnig hafa sýnt félaginu þónokkurn áhuga nýverið.
Fjallað er nánar um málið í Viðskiptablaðinu sem kemur út í fyrramálið.