Árni Guðmundsson, fyrrverandi framkvæmdastjóri Gildis lífeyrissjóðs, telur lífeyrissjóði hér á landi of marga. Í viðtali í ritinu Íslenskir lífeyrissjóðir, sem Samtök sparifjáreiganda gáfu út skömmu fyrir jól, segist hann þeirrar skoðunar að hækka eigi viðmið um lágmarksfjölda sjóðfélaga.
Lífeyrissjóðir hér á landi eru um tuttugu talsins. Þar af eru stærstu sjóðirnir eru með 90% af eignunum og þrír stærstu með 56%, samkvæmt nýlegri umræðuskýrslu Seðlabankans um lífeyrissjóði. Gildi er þriðji stærsti lífeyrissjóður landsins á eftir LSR og LIVE.
„Íslenskir lífeyrissjóðir eru of margir. Það væri gott að hækka viðmið um lágmarksfjölda sjóðfélaga þannig að minni sjóðir, sem útvista nánast allri starfsemi sinni, myndu neyðast til þess að sameinast við stærri sjóði,“ segir Árni.
„Ég sé fyrir mér að það væri heppilegt að vera með fimm eða sex stóra lífeyrissjóði. Þá eru þeir ekki allir að gera sama hlutinn og það myndi tryggja samkeppni.“
Samkvæmt lögum um lífeyrissjóði skulu að jafnaði minnst 800 sjóðfélagar greiða iðgjöld til lífeyrissjóðs reglulega í hverjum mánuði, nema sjóðurinn tryggi áhættudreifingu vegna skuldbindinga sinna með öðrum hætti í samræmi við tryggingafræðilega athugun.
Árni lét af störfum sem framkvæmdastjóri Gildis í árslok 2023 eftir að hafa stýrt sjóðnum frá því að hann varð til með sameiningu Lífeyrissjóðs sjómanna og Lífeyrissjóðsins Framsýnar. Þar áður hafði hann verið framkvæmdastjóri Lífeyrissjóðs sjómanna frá árinu 1982.
Miklar skerðingar „óþolandi“
Árni segir að íslenska lífeyrissjóðakerfið sé mjög gott. Hann gagnrýnir hins vegar skerðingar almenningatryggingar.
„Einn helsti vandi íslenska lífeyriskerfisins að mínu mati eru alltof miklar skerðingar almannatrygginga hjá þeim hópi sem er ekki kominn með alvöru réttindi í lífeyrissjóði. Það er eiginlega óþolandi hvað ríkið getur leyft sér að skerða fólk sem er með lítinn lífeyri.“
Hækka þurfi heimildir til erlendra fjárfestinga
Árni nefnir einnig að vægi erlendra eigna sjóðanna mætti vera hærra til að tryggja seljanleika eigna og telur að auka þurfi heimildir um erlendar fjárfestingar sjóðanna. Á endanum komi að því að ganga þurfi á eignir sjóðanna til þess að mæta eftirlaunaskuldbindingum.
Í ofangreindri umræðuskýrslu Seðlabankans segir að búast megi við því að útgreiðslur lífeyrissjóða geti orðið meiri en innflæði innan tveggja áratuga, ekki síst vegna öldrun þjóðar.
„Einhvern tímann kemur að því að útgreiðslur verða það miklar að iðgjöldin duga ekki,“ segir Árni. „Menn þurfa að hafa það í huga að eignirnar séu seljanlegar. Þess vegna skiptir verulegu máli að við séum með stóran hluta af eignunum erlendis en ekki allt inni í okkar hagkerfi.“
Leyfileg mörk gjaldmiðlaáhættu hafa frá árinu 2001 takmarkast við að a.m.k 50% af heildareignum sé í sama gjaldmiðli og skuldbindingar. Án afleiðusamninga þýðir þetta að sjóðirnir máttu að hámarki fjárfesta 50% af eignum í erlendum gjaldeyri.
Í mars 2023 var samþykkt lagabreyting sem felur í sér hækkun hámarks vægi eigna í erlendum gjaldeyri í skrefum upp í 65% fram til ársins 2036. Hámarkið hækkaði um 1,5 prósentur um áramótin og stendur nú í 53%.
Regluverkið „of hart“
Árni segir að á fyrstu árunum sínum hjá Lífeyrissjóði sjómanna hafi lítið eftirlit með starfi lífeyrissjóðanna. Stjórn sjóðsins hafi fylgst með starfinu og gerð var tryggingafræðileg úttekt á fimm ára fresti.
Þetta hafi breyst mikið með lífeyrissjóðalögunum árið 1997 og í kjölfarið hafi eftirlitið aukist til muna.
„Reglur um risafjármálastofnanir í Evrópu eru látnar ná yfir íslenska lífeyrissjóði án þess að þær passi beinlínis við starfsemina. Það á til dæmis við um lög um peningaþvætti. Nú þarf sem dæmi nánast að tilkynna til lögreglu ef sjóðfélagi greiðir aukalega inn á lán sitt. Mér finnst þetta of langt gengið. Þetta er of hart.“
„Þú gefur ekkert peninga sjóðfélaga“
Í árslok 2023, eftir að Grindvíkingum var gert að rýma bæinn í nóvember það árið, sóttu verkalýðsfélög hart að lífeyrissjóðum og bönkunum og fóru fram á að þessar fjármálastofnanir myndu afskrifa vexti og verðbætur Grindvíkinga með almennum hætti.
Verkalýðsfélag Grindavíkur, Sjómanna- og vélstjórafélag Grindavíkur og VR til mótmæla við skrifstofu Gildis, lífeyrissjóðs skipulögðu mótmæli við skrifstofur Gildis vegna málsins. Árni gagnrýndi á sínum tíma framgöngu Ragnars Þórs Ingólfssonar, þáverandi formanns VR og núverandi þingmanns í mótmælunum.
„Síðustu vikurnar í starfi mínu voru gerðar kröfur um að fella niður vexti og verðbætur Grindvíkinga,“ segir Árni í ofangreindu viðtali. „Þetta var ekki hægt. Þú gefur ekkert peninga sjóðfélaga. Þetta var ótrúlega skrítin barátta. Ég held að þeir sem sóttu málið hljóti að hafa vitað betur.“
Í viðtalinu er rætt nánar við Árna um feril hans, bakgrunn hans í íþróttum, afstöðu Gildis til kauprétta hjá þeim félögum sem sjóðurinn fjárfestir í, og fleira.