Árni Oddur Þórðarson hefur sent frá sér aðra yfirlýsingu vegna starfsloka sinna hjá Marel og ákvörðun Arion banka að leysa til sín hlutabréf hans í Eyri Invest, stærsta hluthafa Marels. Árni Oddur segist hafa fengið samþykkta greiðslustöðvun vegna málsins.

„Eins og ég tilkynnti í gær, þá hef ég látið af störfum sem forstjóri Marel eftir 10 ára starf, en áður var ég stjórnarformaður félagsins í átta ár. Samhliða því hef ég nú fengið samþykkta greiðslustöðvun vegna þeirrar réttaróvissu sem skapast hefur vegna aðgerða Arion banka, sem leyst hefur til sín hluta hlutabréfa minna í Eyri Invest, leiðandi fjárfestis í Marel, þrátt fyrir að ákvæðum langtímalánasamnings við bankann hafi verið fullnægt.“

Í gærkvöldi var tilkynnt um að Árni Oddur Þórðarson hefði látið af störfum sem forstjóri Marels eftir að hafa gegnt stöðunni undanfarinn áratug. Samhliða tilkynningu Marels til Kauphallarinnar sendi Árni Oddur frá sér yfirlýsingu þar sem hann sagðist telja aðgerðir Arion banka hvorki í samræmi við samninga, lög né viðteknar venjur.

„Fyrir liggur að eignir eru vel umfram skuldbindingar þrátt fyrir lækkun á markaðsverði hlutabréfa Marel að undanförnu. Ég hef nú fengið samþykkta greiðslustöðvun til að fá tíma og rúm til að vinna að farsælli og sanngjarnri lausn. Að öðru leyti vísast til tilkynningar minnar í gær.“

Í lögum um gjaldþrotaskipti er fjallað um heimild til greiðslustöðvunar. Í 10. grein laganna segir að skuldari, sem eigi í verulegum fjárhagsörðugleikum og vill freista þess að koma nýrri skipan á fjármál sín með aðstoð lögmanns eða löggilts endurskoðanda, sem hann hefur ráðið í því skyni, geti leitað heimildar til greiðslustöðvunar.

Í yfirlýsingu Árna Odds í gær kom fram að Arion banki hefði leyst til sín allan 4,87% hlut sinn í Eyri Invest sem á 24,67% hlut í Marel. Bankinn hafi leyst til sín bréfin á undirliggjandi virði eigna samkvæmt lánasamningi 31. október og gjaldfellt lánið.

Árni Oddur sagði að Aion banki hefði gripið til þessara aðgerða þrátt fyrir að „á­kvæðum lang­tíma­lána­samnings míns við bankann hafi verið full­nægt af minni hálfu“.

Hann sagðist hafa gengið svo langt að leggja allar sínar eigur undir til að tryggja að veðhlutfall lánsins næmi tvöfaldri fjárhæð í lánasamningi en á síðustu stundi hafi bankinn bætt við óaðgengilegum kröfum umfram skilmála lánasamnings auk þess að hafna innágreiðslu upp á 335 milljónir króna.

Árni Oddur sagði að að­gerð Arion­ banka hafi verið mót­mælt af lög­mönnum sínum og málið hafi verið kynnt Fjár­mála­eftir­litinu.