Árni Oddur Þórðar­son, for­stjóri Marel, hefur óskað eftir því að láta af störfum frá og með deginum í dag en á­stæðan mun vera vegna réttar­ó­vissu sem skapast hefur vegna að­gerða Arion ­banka bankinn hefur leyst til sín hluta­bréf Árna Odds í Eyri Invest, sem er leiðandi fjár­festir í Marel. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Árna Oddi sem telur aðgerðina ekki í samræmi við langtímalánasamning sinn við bankann. Árni Oddur átti 18% hlut í Eyri Invest en eftir innlausn bankans á hann 13%.

„Á­stæðan fyrir því að ég stíg til hliðar sem for­stjóri Marels á þessum tíma­punkti er sú réttar­ó­vissa sem skapast hefur vegna að­gerða Arion ­banka sem eru hvorki í sam­ræmi við samninga, lög né við­teknar venjur, en bankinn hefur leyst til sín hluta­bréf mín í Eyri Invest, sem er leiðandi fjár­festir í Marel.

Arion­ banki greip til þeirra að­gerða þrátt fyrir að á­kvæðum lang­tíma­lána­samnings míns við bankann hafi verið full­nægt af minni hálfu, en ég hef átt í við­ræðum við bankann síðustu vikur, sem ég taldi vera í fullu trausti, og gekk svo langt að leggja allar mínar eigur undir til að tryggja að veð­hlut­fall lánsins næmi tvö­faldri fjár­hæð í lána­samningi. Á síðustu stundu bætti bankinn við ó­að­gengi­legum kröfum um­fram skil­mála lána­samnings, hafnaði inn­á­greiðslu upp á 335 milljónir króna og kaus að leysa bréfin til sín frekar en að efna lána­samninginn. Bréfin leysti bankinn til sín á undir­liggjandi virði eigna skv. lána­samningi 31.októ­ber, gjald­felldi lánið en hefur enn ekki skilað um­fram­virði eigna,“ segir í tilkynningu Árna Odds.

FME tilkynnt um aðgerðina

Árni Oddur segir að að­gerð Arion­ banka hafi verið mót­mælt af lög­mönnum sínum og málið hafi verið kynnt Fjár­mála­eftir­litinu.

„Á­samt lög­mönnum mínum mun ég nú ein­beita mér að því að fá skýr­leika í málið og að leysa úr þessari réttar­ó­vissu.Til að lág­marka líkur á því að þessi staða sem upp er komin skaði Marel, sem mér er svo kært, hef ég á­kveðið að stíga til hliðar sem for­stjóri. Mér er ljúft að segja, að skarð mitt verður auð­fyllt, þar sem Marel hefur á að skipa ein­stökum hópi hæfi­leika­ríks starfs­fólks. Ég mun gera allt til að ná far­sælli lausn mála og vonast til að geta tekið þátt í fram­tíðar verð­mæta­sköpun Marel sem hlut­hafi í fé­laginu.

Eftir stendur, að á þessum tíma­mótum er ég fullur þakk­lætis fyrir þann tíma sem ég hef leitt Marel. Ég deili skoðun er­lendra grein­enda sem meta hluta­bréf fé­lagsins veru­lega undir­verð­lögð og mæla sterk­lega með kaupum. Ég er ó­endan­lega stoltur af því sem öflugur starfs­manna­hópur fé­lagsins hefur á­orkað saman og veit að Marel mun vaxa og dafna og halda á­fram að leiða fram­þróun í mat­væla­fram­leiðslu í heiminum,“ segir í tilkynningunni.

Árni Sigurðsson nýr forstjóri

Í til­kynningu frá Marel kemur fram að stjórn fé­lagsins féllst á starfs­lokin og tekur Árni Sigurðs­son, sem gegnt hefur starfi að­stoðar­for­stjóra Marel, við starfi for­stjóra tíma­bundið á meðan stjórn mun finna fé­laginu for­stjóra til fram­tíðar.

„Árni Sigurðs­son hefur starfað hjá Marel frá árinu 2014, fyrst sem yfir­maður stefnu­mótunar og þróunar, síðar fram­kvæmda­stjóri stefnu­mótunar og stefnu­markandi rekstrar­eininga, og hefur síðast­liðið ár gegnt stöðu að­stoðar­for­stjóra fé­lagsins og leitt tekju­svið þess. Áður en hann gekk til liðs við Marel starfaði Árni hjá AGC Partners og Lands­bankanum. Árni er með MBA gráðu frá Harvard Business School og BSc gráðu í iðnaðar­verk­fræði frá Há­skóla Ís­lands,“ segir í til­kynningunni.

Árni Sigurðsson er bróðir Jóns Sigurðssonar, forstjóra Stoða, en Stoðir eru fjórði stærsti hluthafinn í Arion banka.

Árni Sigurðsson
Árni Sigurðsson
© Aðsend mynd (AÐSEND)


„Það er mér heiður að fá að leiða okkar frá­bæra teymi í Marel til á­fram­haldandi sam­starfs við við­skipta­vini okkar á heims­vísu," segir Árni Sigurðsson. „Í störfum mínum fyrir Marel hef ég unnið þvert á tekju­svið og rekstrar­einingar fé­lagsins í hart­nær ára­tug og hef mikla trú á þeim tæki­færum, tækni og mann­auði sem Marel býr að til að um­breyta mat­væla­iðnaði á heims­vísu. Við höfum tekið mikil­væg skref í átt að betri árangri og við erum á réttri leið. Ég hlakka mikið til að starfa nánar með okkar frá­bæra starfs­fólki, við­skipta­vinum og öðrum hag­aðilum á komandi vikum og varða veginn til á­fram­haldandi vaxtar.“

Í tilkynningunni frá Marel þakkar stjórn félagsins Árna Oddi fyrir hans mikil­væga fram­lag til vaxtar og vel­gengni Marel síðustu 10 ár sem for­stjóri og þar áður sem stjórnar­for­maður í 8 ár.

„Skýr fram­tíðar­sýn hans og metnaður fyrir því að um­breyta mat­væla­iðnaði á heims­vísu hefur verið leiðar­ljós í stefnu Marel. Stjórnin er á­nægð að geta leitað til Árna Sigurðs­sonar til að taka tíma­bundið við hlut­verki for­stjóra og tryggja þannig sam­fellu í rekstri gagn­vart við­skipta­vinum og á­fram­haldandi sókn í sam­ræmi við vaxtar­stefnu fé­lagsins. Hann hefur fullt traust stjórnar til að leiða Marel á­fram á þeirri braut sem mörkuð hefur verið til frekari virðis­aukningar,“ segir Arnar Þór Más­son, stjórnar­for­maður Marel."

„Veg­ferð Marel verið ævin­týri líkust"

Árni Oddur hefur verið forstjóri Marel síðastliðin 10 ár en þar áður var hann stjórnarformaður félagsins í 8 ár.

„Við faðir minn, Þórður Magnús­son, komum inn í hlut­hafa­hóp Marel fyrir tæpum tuttugu árum og höfum verið leiðandi fjár­festar í Marel sem stærstu hlut­hafar í Eyrir Invest," segir í tilkynningunni sem Árni Oddur sendi frá sér í kvöld. „Á þessum tíma hefur veg­ferð Marel verið ævin­týri líkust, fé­lagið er heims­leið­togi á sviði lausna, hug­búnaðar og þjónustu í mat­væla­iðnaði. Marel hefur vaxið frá því að vera með 700 starfs­menn og 130 milljónir evra í ár­legar tekjur yfir í al­þjóð­legt fyrir­tæki með starfs­stöðvar um allan heim, 7.500 starfs­menn og 1,7 milljarða evra í ár­legar tekjur.

Á sama tíma hafa þjónustu­tekjur farið úr 10% í yfir 40% af heildar­tekjum. Marel er í farar­broddi í ný­sköpun og sjálf­bærni og hefur lagt lóð á vogar­skálarnar til að um­bylta mat­væla­fram­leiðslu í heiminum. Marel hefur verið fyrir­mynd í við­skipta- og sprota­um­hverfi á Ís­landi og hefur stutt ís­lenskan sjávar­út­veg til aukinnar sjálf­bærni og arð­semi,“ skrifar Árni.

„Hlut­hafar fé­lagsins hafa notið góðs af þeim árangri sem náðst hefur, en ár­leg meðal­á­vöxtun, þar á meðal hjá ís­lenskum líf­eyris­sjóðum og al­menningi, hefur verið yfir 10%. Þó að síðasta ár hafi verið við­skipta­vinum krefjandi vegna ytri að­stæðna, þá var unnið að öflugri við­spyrnu innan fé­lagsins og sáust þess skýr merki í nýjasta upp­gjöri fé­lagsins þar sem kostnaðar­grunnur hefur lækkað mikið, sjóðs­streymi er gríðar­lega sterkt og grein­endur á markaði eru sam­mála um að fé­lagið sé veru­lega undir­verð­lagt.“