Um helgina fer fram Götubitahátíðin í Hljómskálagarðinum en hátíðin er sú stærsta sinnar tegundar á Íslandi. Hátíðin fór fyrst fram árið 2019 og var hún ein af þeim fáu sem fóru fram og urðu jafnvel vinsælli í gegnum heimsfaraldur.
Róbert Aron Magnússon, framkvæmdastjóri hátíðarinnar, segir þetta vera nokkurs konar árshátíð matarvagna á Íslandi og er ánægður að sjá hversu vel hefur gengið á stuttum tíma.
„Við byrjuðum með þetta 2019 og var það í fyrsta skipti sem matarviðburður var haldinn á Íslandi þar sem einblínt var á götubita og matarvagna. Ég fékk sjálfur að kynnast þessu þegar ég bjó erlendis og þegar ég flutti heim sá ég að það var vöntun fyrir þessu hér,“ segir Róbert.
Hann ákvað þá að fara af stað með að búa til matarhátíð og fór meðal annars í samstarf við European Street Food Awards, en það er stærsta götubitakeppni í heiminum. Hátíðin hafi síðan þá vaxið jafnt og þétt og til að mynda bárust yfir 40 umsóknir fyrir hátíðina í ár.
„Í fyrra komu 30.000 gestir sem gerir þetta að stærsta matarviðburð á Íslandi. Við erum líka bara að reyna að búa til fjölbreytni. Í ár verða aðilar frá Ítalíu, Kólumbíu, Mexíkó, Póllandi, Spáni, Ástralíu, Indlandi, Tyrklandi, Japan, Kóreu, Kína og Íslandi.“
Róbert segir að allir söluaðilar sem verði á hátíðinni séu með einhvers konar starfsemi á Íslandi nú þegar, en 15 söluaðilar af þeim 24 básum og vögnum sem verða með aðstöðu eru nýlega komnir á markaðinn. Hann segir þetta vera tilvalið tækifæri fyrir nýja veitingastaði til að prufa sig áfram.
„Besta dæmisagan er örugglega strákarnir í Just Wingin‘ It sem byrjuðu fyrst með okkur. Þeir hófu starfsemi sína í vagni og unnu verðlaun fyrir Besta smábitann árið 2020. Svo hafa þeir verið með okkur síðastliðin þrjú ár en verða því miður ekki með í ár því þeir seldu vagninn sinn en eru nú komnir með tvo veitingastaði.“
Engin áskorun of mikil
Róbert segir veðrið vera helsta áskorunin en að sögn hans hefur Götubitahátíðin viðhaldið góðu samstarfi við bæði Reykjavíkurborg og samstarfsaðila sína. „Það eru samt alltaf einhverjar reglugerðir sem flækja fyrir en við náum alltaf að vinna með það enda er þetta nýtt og allir að aðlaga sig að nýju umhverfi.“
Þegar fyrsta hátíðin fór fram árið 2019 gerðu söluaðilar miklar væntingar fyrir sumarið 2020 en sökum heimsfaraldurs var ekki mikið um hátíðahöld það ár.
„Hugmyndafræðin er að fólk geti setið saman og notið sín og smakkað sem flest“
„Fólk var hvatt til að vera heima hjá sér og þá fengum við þá hugmynd að koma bara með úrval af mat í hverfin til fólksins. Þannig ég hóaði saman í vagnana og við fundum bara bílastæði, auglýstum okkur vel og ákváðum að vera þarna í ákveðinn tíma. Fólk gat þá líka bara keyrt upp að lúgunni og að vagninum og þannig varð til þessi sprengja. Áður fyrr voru allir í sínu horni en með þessu sameinuðumst við.“
Hann segir að upphaflega hafi þetta verið kallað „Götubitinn á hjólum“ og að vagnarnir hafi farið í rúmlega 150 heimsóknir fyrsta árið. „Við vorum kannski í Garðabænum á fimmtudegi, Kópavogi á föstudegi og svo í Grafarvoginn á laugardegi. Svo þegar létti til þá voru starfsmenn með keilur sem merktu tveggja metra regluna.“
Seint koma sumir en sigra samt
„Við vorum kannski 15 árum á eftir þegar við byrjuðum árið 2019 með okkar hátíð, en það hefur ekki haft áhrif á árangurinn. Við erum með menn eins og Silla kokk. Hann vann keppnina í fyrra og fór svo út og keppti á European Street Food Awards og vann besti borgarinn í Evrópu og lenti svo í öðru sæti yfir Besta götubitann í Evrópu.“
Róbert segir drauminn vera að geta ferðast með Götubitahátíðina næstu árin í túr rétt eins og sveitaböllin gerðu í gamla daga. Hann segir það frábært að sjá alla þá fjölbreytni sem er að koma og að allir geti komið og prufað nýja og spennandi hluti.
„Hugmyndafræðin er að fólk geti setið saman og notið sín og smakkað sem flest. Á meðan geta krakkarnir leikið sér og fólk getur spjallað. Þetta sýnir bara á hvaða stall við erum komin í þessar götubitamenningu,“ segir Róbert.