Ríkisendurskoðun á enn eftir að birta ársskýrslu stofnunarinnar fyrir árið 2022. Stofnunin stefnir á að birta ársskýrslur fyrir árin 2022 og 2023 á næstu vikum.

Guðmundur Björgvin Helgason ríkisendurskoðandi rekur tafir á birtingu ársskýrslu 2022 til ákveðinna skipulagsbreytinga hjá stofuninni ásamt því að til stendur að breyta birtingarforminu á ársskýrslunni.

„Svo kemur þú inn á þann tímapunkt að það borgar sig bara að slá tvær flugur í einu höggi frekar heldur en gera þetta einhvern veginn öðruvísi,“ segir Guðmundur Björgvin í samtali við Viðskiptablaðið. „Það styttist í þetta.“

Meðal hlutverka Ríkisendurskoðunar er eftirlit með ársreikningum kirkjugarða, eftirlit með fjármálum stjórnmálasamtaka, afmarkað eftirlit með fjárreiðum sjóða og stofnana sem starfa samkvæmt staðfestri skipulagsskrá og endurskoðun ríkisreikninga. Hlutverk stofnunarinnar er m.a. að hafa eftirlit með skilum ársreikninga viðkomandi aðila á tilsettum tíma.