Ásgeir Jónsson seðlabankastjóri tók við verðlaunum um helgina í tilefni af því að hann fékk hæstu einkunn í mati Globe Finance á seðlabankastjórum í heiminum. Ásgeir var eini seðlabankastjórinn sem fékk einkunnina A+.

Í rökstuðningi á einkunnagjöfinni segir Globe Finance að Ásgeir hafi verið fyrsti seðlabankastjóri hjá vestrænu ríki til að hefja vaxtahækkunarferli á fyrri hluta síðasta árs.

„Ásgeir brást fljótt og með afgerandi hætti við upphaflegu spá seðlabankans um að verðbólga myndi ná hámarki í 11% seinna í ár og réðst í 75 og 100 punkta vaxtahækkanir. Á fundi bankans í ágúst hækkaði bankinn vexti um 0,75 prósentustig til viðbótar, upp í 5,5%, og Ásgeir útilokaði ekki frekari vaxtahækkanir til að tækla viðvarandi húsnæðisverðbólgu og vaxandi verðbólgu í heimshagkerfinu.

Hann óttast heldur ekki að nota önnur tól í verkfærakassa seðlabankans – lækkaði hámark veðsetningar- og greiðslubyrðarhlutfalls íbúðalána – til að stýra verðbólgu á íslenska húsnæðismarkaðnum.“

Einnig má finna stutt viðtal við Ásgeir í ritinu. Spurður um ástæðu þess að Seðlabanki Íslands hóf vaxtahækkunarferli strax í maí í fyrra, svarar Ásgeir að sökum smæðar íslenska hagkerfisins trúi bankinn í raun ekki á skammvinn verðbólguskot (e. transitory inflation shocks) þar sem afleiðing síðkominna aðgerða eru talsvert meiri hér heldur en í stærri hagkerfum.

„Nálgun okkar hefur skapað mikinn sársauka fyrir almenning, en ég tel að í heildina sé skilningur og trú á því sem við erum að reyna að afreka. Síðustu verðbólgutölur voru hughreystandi. Verðbólga fer minnkandi. Samræmda vísitala neysluverðs sýnir að við erum með minnstu verðbólgu Evrópu á eftir Sviss,“ segir Ásgeir.

Athöfn Global Finance fór fram í tengslum við ársfund Alþjóðagjaldeyrissjóðsins sem fór fram dagana 12.-16. október. Ásgeir og aðrir fulltrúar Seðlabanka Íslands áttu fundi með yfirstjórn og sérfræðingum Alþjóðagjaldeyrissjóðsins, kjördæmi Norður- og Eystrasaltslanda hjá sjóðnum, matsfyrirtækjum, fjármálafyrirtækjum og sendinefndum annarra ríkja.

Guðrún Ögmundsdóttir, fulltrúi Íslands á kjördæmisskrifstofu Norður- og Eystrasaltslanda hjá AGS í Washington, Gunnar Jakobsson varaseðlabankastjóri, Ásgeir Jónsson seðlabankastjóri og Guðrún Sóley Gunnarsdóttir, aðstoðarframkvæmdastjóri í Seðlabankanum.