Ásgeir Jónsson seðlabankastjóri segir peningastefnunefnd Seðlabankans mjög hikandi við að létta á taumhaldi peningastefnunnar. Verkefnið við að ná verðbólgunni niður gangi vel en hann hefur áhyggjur af mögulegri tregðu á síðustu metrunum þegar kemur að því að ná verðbólgu í markmið. Því þurfi hátt raunvaxtastig.
„Hlutirnir hafa verið að ganga mjög vel í vetur. Maður veltir fyrir sér hvort þetta sé of gott til að vera satt, hvort að fórnarkostnaðurinn við að ná niður verðbólgu verði ekki meiri,“ sagði Ásgeir á kynningarfundi Seðlabankans í morgun.
Seðlabankinn tilkynnti í morgun að peningastefnunefndin hefði ákveðið að lækka stýrivexti um 0,5 prósentur, úr 8,5% í 8,0%.
Erna Björg Sverrisdóttir, aðalhagfræðingur Arion banka, benti á að nefndin hafi haldið raunstýrivöxtum í kringum fjögur prósent upp á síðkastið og spurði hvað þyrfti til svo að nefndin myndi létta á þessu taumhaldi.
Ásgeir sagði nefndina hafa haldið taumhaldinu í kringum 400 punkta að undanförnu en bætti við að það sé ekki „einhver þumalfingurshagfræði“. Með þessu þétta taumhaldi sé vaxtalækkunarferlið að einhverju leyti rekið áfram af áframhaldandi lækkun verðbólgu.
„Þetta taumhald er búið að virka mjög vel. Þetta hefur bara gengið mjög vel, þessi verðbólguhjöðnun. Við sjáum að í sjálfu sér er raunhagkerfið ótrúlega sterkt. Við sjáum ekki merki enn þá um neina bresti, eins og greiðsluvandræði eða eitthvað svoleiðis.“
„Okkur liggur ekkert á“
Þórarinn G. Pétursson, varaseðlabankastjóri peningastefnu, sagði að þótt verðbólgan hafi verið að hjaðna þá sé hún enn næstum því tvöfalt meiri en 2,5% verðbólgumarkmiði Seðlabankans.
Þá séu verðbólguvæntingar í kringum 3,5% eða einu prósenti yfir markmiði, launahækkanir hafi verið um 6-7% og Seðlabankinn sjái vísbendingar um að hagkerfið hafi ekki í raun dregist saman í fyrra. Það sé hins vegar klárlega að hægja á vexti og umsvifum.
„Þannig að ég held að tíminn til að fara að létta eitthvað alvöru af þessu taumhaldi sé þegar við sjáum svo sannarlega merki um það að verðbólguþrýstingurinn sé í rénun. Þá stígum við skrefið. Þangað til verðum við bara að fara mjög varlega,“ sagði Þórarinn.
„Okkur liggur í raun og veru ekkert á. Þetta þjóðarbú stendur bara mjög sterkt. Þannig að hraði við að létta á taumhaldi, það er engin aðkallandi þörf á því.“
Mestar áhyggjur af verðbólguvæntingum
Ásgeir sagði hagtölur Hagstofunnar gefa til kynna að hagkerfið hafi dregist saman í fyrra. Mögulega kunni þessar tölur hins vegar að breytast við endurskoðun hjá Hagstofunni.
„Það liggur samt fyrir að það er búið að hægja verulega á hagkerfinu eftir mikinn vöxt. Samkvæmt spánni sem er verið að kynna þá er kominn framleiðsluslaki á þessu ári.
Við höfum auðvitað áhyggjur af því að verðbólguvæntingar séu enn þá of háar. Þær hafa lækkað en eru enn þá of háar. Eins og kemur fram í nýjust verðbólguspánni þá má velta fyrir sér hvort að það sé tregða á síðustu metrunum að ná verðbólgunni í markmið. Hún kannski lækki frá núverandi stigi, kannski niður fyrir fjögur prósent eða þrjú komma eitthvað. En hvernig verður að ná henni alveg niður? Þannig að þetta er eitthvað sem að nefndin mun væntanlega leggja mat á.“
Ásgeir sagði síðar á fundinum að mesta vandamál Seðlabankans séu verðbólguvæntingar og bætti við að þær verði í lykilhlutverki þegar kemur að „síðustu mílunni“.
Hvað varðar mögulegar hættur þá geti tollastríð truflað ferlið, m.a. út af mögulegum áhrifum á helstu útflutningsgreinarnar og mögulegra hækkana á innflutningsverði.
Ásgeir nefndi einnig að verðbólga hafi að einhverju leyti verið rekin áfram af hækkun fasteignaverðs og að fasteignaverðbólgan sé að ganga niður. Verðbólga án húsnæðis hafi verið komin niður í tæplega 3% síðasta haust og haldist nokkuð stöðug síðan.