Ásgeir Jónsson seðlabankastjóri segir að áhrif nýgerðra kjarasamninga og aðgerða í ríkisfjármálum á eftirspurn annars vegar og Grindavíkuráhrif á fasteignamarkaði hafi reynst meiri en gert var ráð fyrir.

Ásgeir Jónsson seðlabankastjóri segir að áhrif nýgerðra kjarasamninga og aðgerða í ríkisfjármálum á eftirspurn annars vegar og Grindavíkuráhrif á fasteignamarkaði hafi reynst meiri en gert var ráð fyrir.

„Kjarasamningarnir höfðu greinilega meiri áhrif á verðlag og neyslu en gert var ráð fyrir,“ sagði Ásgeir á vaxtaákvörðunarfundi Seðlabankans í morgun. „Það er bæði vegna þess að mældar launahækkanir eru alveg töluverðar og líka það að aukning á kaupmætti í gegnum m.a. aðgerðir ríkisins hafa líka haft áhrif.“

Þá hafi yfir 70 milljarða króna aðgerðir ríkissjóðs á fasteignamarkaðinn í Grindavík, þar sem finna þurfti íbúðir fyrir 1% þjóðarinnar eins og Ásgeir orðaði það, haft töluverð áhrif.

„Við höfum séð fasteignamarkaðinn taka við sér verulega. Ég held að sú viðspyrna hafi í raun hafist þegar ríkið fór að kaupa íbúðir í janúar til þess að leigja Grindvíkingum. Svo held ég að það að Grindvíkingar hafi verið væntanlegir inn á markaðinn hafi orðið til þess að fólk fór að kaupa fasteignir. Þannig við höfum séð fasteignamarkaðinn taka aftur við sér, sem hefur náttúrulega haft áhrif á verðbólgu.“

Tapað þremur og hálfum mánuði af hjöðnun

Ásgeir lýsti þessum tveimur þáttum sem einskiptismálum sem tefji fyrir þá aðlögun í hagkerfinu sem þegar hafi verið hafin. Þróun frá síðasta vaxtaákvörðunarfundi Seðlabankans í maí hafi ekki verið alveg eins og bankinn hafði vænst en verðbólguvæntingar hefði þó lítið breyst.

„Þannig að það má eiginlega segja að […] við höfum tapað þremur og hálfum mánuði í þessari hjöðnun en við teljum að hún sé að halda áfram og muni halda áfram.“

Hann áréttaði að peningastefnunefnd Seðlabanka Íslands - sem tilkynnti í morgun um að hún hefði ákveðið að halda stýrivöxtum óbreyttum í 9,25% - telji núverandi aðhaldsstig sem er í kringum 4% raunvextir vera nægjanlegt til að ná verðbólgu niður. Hvað varðar vaxtalækkunarferlið þá sagði Ásgeir það velta á hvað verðbólga gengur hratt niður.

„Ef hún gengur hratt niður þá þurfum við ekki að fara í aumingjalegar lækkanir. En það er allavega mjög mikilvægt að þessi meginskilaboð fari í gegn. Það hefur mjög litla þýðingu að vera að hreyfa stýrivexti um einhverja 25 punkta sem dæmi þegar þessi meginþungi blasi við.“

Ný verðbólguspá Seðlabankans sem birtist í Peningamálum sem komu út í morgun.

Ótrúlegur kraftur í hagkerfinu

Ásgeir sagði að það væri töluverður kraftur í íslenska hagkerfinu „og bara alveg ótrúlegur kraftur miðað við þetta mikla vaxtaaðhald sem erum búin að vera með í heilt ár“. Hann nefndi m.a. að nýjar tölur um kortaveltu gefa til kynna að ferðaþjónustunni virðist hafa gengið þokkalega að undanförnu.

„Þannig að við stöndum þá bara hér þremur og hálfum mánuði síðar, ég veit ekki hvort við eigum að segja í sömu sporum. En þess kólnun hefur látið bíða eftir sér.“